143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[14:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Segja má að fræðilegur grundvöllur umsóknarinnar hafi verið unninn í tíð fyrri ríkisstjórnar sem sat undir forustu Davíðs Oddssonar. Evrópunefndin vann grundvöll umsóknarinnar sem síðar varð. Þar er til dæmis farið ákaflega vel yfir þetta. Það voru, held ég eftir rosknu og hrörnandi minni, á þriðja tug nokkuð sterkra sérlausna í landbúnaði gagnvart fjölda þjóða settar fyrir áratugum. Af hverju eru þær enn þá? Vegna þess að aðstæðurnar sem þær áttu að svara eru enn þá við lýði.

En við skulum bara segja umræðunnar vegna að það sé allt saman rétt sem hv. þm. Birgir Ármannsson segir. Það liggur fyrir að áður en við fórum í ferlið og meðan á því stóð var algjörlega ljóst að þetta var það sem Evrópusambandið sagði: Séríslensk vandamál verða leyst með sérstökum sérlausnum. Hvers vegna ekki að láta á það reyna? Þá getum við lagt þetta „argument“ til hvílu og bara gerst gamlir (Forseti hringir.) og skemmt okkur í ellinni við að rifja upp liðna tíma. Hví ekki? (Forseti hringir.) Klárum málið. Látum á þetta reyna.