143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[14:20]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvers vegna ekki að láta á það reyna með sérlausnirnar? Nú hefur hv. þingmaður, sem áður var utanríkisráðherra, haft nokkur ár til þess að láta á það reyna og ekki haft árangur sem erfiði. Hvers vegna skyldi það vera? (Gripið fram í.)Er það vegna þess að okkur standa ekki til boða þær miklu sérlausnir eða undanþágur, eins og það var kallað í upphafi síðasta kjörtímabils, sem forgöngumenn síðustu ríkisstjórnar töluðu alltaf fyrir og töldu sjálfsagt mál að við ættum auðveldan aðgang að? Þetta fellur auðvitað allt um sjálft sig.

Það stendur í þessari skýrslu, eins og við höfum alltaf vitað og talað margoft um hér, að það eru engar varanlegar undanþágur gefnar frá regluverki Evrópusambandsins. Ef þær koma til eru þær tímabundnar. Meginreglan er alltaf sú að aðildarríki gengur inn í það regluverk Evrópusambandsins sem er í gildi á hverjum tíma. Það á sérstaklega við á þeim sviðum er varða sjávarútveg og landbúnað. Það hefur reynslan sýnt okkur, þá einkum samningar Noregs við Evrópusambandið.

Það eru tvö önnur atriði sem ég vil ræða við fyrrverandi ráðherra. Þau varða aðlögun. Við höfum staðið í þessum ræðustól í fjögur ár og talað um hvort þetta hafi verið aðlögunarviðræður eða aðildarviðræður. Þessi skýrsla segir mér að ég hafi haft rétt fyrir mér, þar stendur svart á hvítu að um aðlögun Íslands að sáttmála með regluverki Evrópusambandsins var að ræða. Getur hv. þingmaður loksins viðurkennt að það var svo að Ísland var að aðlaga sig að regluverki Evrópusambandsins þannig að við stóðum í aðlögunarviðræðum?