143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[14:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að fara í nein andsvör í þessari umræðu heldur flytja kannski ræðu í lokin, en það er hins vegar ekki hægt annað en að bregðast við ákveðnum hlutum hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Það væri alveg hægt að eyða mörgum mínútum í að fara yfir misskilninginn sem einkenndi mál hans þegar hann fór með himinskautum, eins og hv. þingmaður gerir gjarnan. Hv. þingmaður lagðist mjög lágt þegar hann tók undir fullyrðingar og undarlegan fréttaflutning af ræðu minni hér í gær, athugasemdir einhverra bloggara úti í bæ um að utanríkisráðherra hafi kennt Evrópusambandinu um óöldina í Úkraínu. Það er einfaldlega rangt.

Ég hvet þingmanninn til þess að lesa þá ræðu og andsvör sem ég flutti í gær við umræðuna þar sem kom fram, og ég var að vitna til ferlisins sem við fórum í í Evrópusambandinu, að það er viðurkennt og skrifað um það í fjölmiðlum erlendis að Evrópusambandið gerði trúlega mistök gagnvart Úkraínu með því að beita úkraínsk stjórnvöld of miklum þrýstingi, gera of miklar kröfur. Það hefur meðal annars leitt til þess, því miður, að þeir sem stjórna núna í Úkraínu, sem ég held að þurfi að svara til saka fyrir það sem þeir hafa gert þjóð sinni, sneru sér í hina áttina. Það er ekki Evrópusambandinu að kenna að verið sé að drepa fólk þarna í dag. Það hefur enginn sagt og mun ekki geta sagt. En Evrópusambandið hefði trúlega getað lagt meira á sig til að ná Úkraínu til sín. Ég vona að ekki verði gerð sömu mistök með önnur gömul austantjaldsríki sem vilja gjarnan vinna með Evrópuþjóðunum.

Ég sagði í gær: Það er vont að hugsa til þess að Evrópusambandinu tókst ekki að koma í veg fyrir þau átök sem eiga sér stað núna í Úkraínu. Það er vont að hugsa til þess, en það var reynt. Það er líka vont að hugsa til þess að við, utanríkisráðherrar Norðurlandaþjóðanna og Eystrasaltsríkjanna, sem áttum fund með stjórnarandstöðunni tókst heldur ekki (Forseti hringir.) koma vitinu fyrir stjórnvöld í Úkraínu. En við funduðum með stjórnarandstöðunni og vitum nákvæmlega hvað er að gerast. (Forseti hringir.)