143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[14:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni má vera alveg ljóst að ég hef ekki dregið dul á skoðun mína á Evrópusambandinu gagnvart Evrópuþingmönnum eða þeim ágætu mönnum sem ég funda með úti í Evrópu. Ég dreg ekki dul á hvað mér finnst um Evrópusambandið. Það á þó ekkert að blanda því saman við einstakar þjóðir. Það á ekki að blanda því saman við hvað mér finnst gott og yndislegt að eiga fundi og vinna með Frökkum eða Þjóðverjum. En Evrópusambandið er eitthvað sem mér finnst (Gripið fram í.)algjörlega vonlaust batterí fyrir Ísland, þannig að það sé sagt og ítrekað. Við eigum ekkert erindi þangað inn.

Hv. þingmaður opinberar að hann hvorki les orðið né hlustar. Það er kannski skýringin á útúrsnúningum þingmannsins í ræðustól, að hann er hættur að lesa, hann er hættur að hlusta og fer í sinn eigin heim þegar hér eru fluttar ræður. Ég hvet þingmanninn til þess að hlusta aftur í það minnsta eða láta prenta út fyrir sig eða lesa fyrir sig ræðu mína frá því í gær. Þá kannski sér þingmaðurinn og heyrir hvað ég sagði um Úkraínu.