143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[14:57]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við þurfum lengri tíma vegna þess að ég er með fleiri spurningar.

Hvað með deilistofnana? Hvað með sjálfsforræði okkar í því að semja? Við missum það. Er það ekki eitthvað sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af? Og það er ekkert hugsanlega, mögulega, kannski varðandi heildaraflann, eins og hv. þingmaður kom að, þ.e. að það væri eitt af þeim atriðum sem við þyrftum að semja um. Það er ljóst og kemur fram í skýrslunni að ekki er hægt að fá undanþágu frá ákvæðinu um að heildarafli í helstu veiðum skuli ákvarðaður formlega á vettvangi Evrópusambandsins. Það er ljóst, það kemur fram í skýrslunni svart á hvítu að þannig er þetta.

Við skulum því ekki vera að slá ryki í augu fólks um að hugsanlega, jafnvel og kannski væri hægt að hafa þetta einhvern veginn öðruvísi. Þetta liggur skýrt fyrir.