143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[14:58]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hættum að slá ryki í augu fólks, segir hv. þingmaður. Þá skora ég á hana að koma með mér í þann leiðangur með okkur að leiða þetta mál til lykta. Fáum staðreyndirnar á borðið, ljúkum aðildarviðræðunum og leyfum þjóðinni að sjá hvað kemur út úr þeim og í hvaða samhengi hlutirnir eru. Gefum fólki stóru myndina, gefum því stóru myndina, ég skora á okkur.

Virðulegi forseti. Varðandi Noreg var það sem ég sagði í ræðu minni einfaldlega þetta: Þar var verið að semja um sjávarútveg á grundvelli svæðisbundinna hagsmuna ákveðinna strandsvæða. Á Íslandi eru þetta grundvallarhagsmunir þjóðarinnar. Hvers vegna? Útflutningstekjur Norðmanna eru 5,4% af sjávarútvegi, útflutningstekjur okkar Íslendinga eru einhvers staðar rétt undir 40%. Það er grundvallarmunur þarna á.

Sama staða var uppi 1990 nema þá var munurinn enn þá meiri. (Forseti hringir.) Þá voru útflutningstekjur Norðmanna 6%, þannig að þeir sömdu á forsendum þess að vera með 6% af útflutningstekjum sínum í sjávarútvegi á meðan (Forseti hringir.) við erum með allt aðrar forsendur. Þess vegna tel ég tölurnar ekki sambærilegar.