143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[14:59]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir kraftmikla ræðu. Mig langar að koma inn á nokkur atriði sem koma fram í skýrslunni. Ég tel skýrsluna mjög góða og farið er mjög vel yfir ýmsa þætti sem haldið hefur verið fram í umræðunni undanfarin ár, m.a. af hv. þingmanni, að séu fólgnir í aðildarviðræðum.

Það er til dæmis komið inn á sjávarútvegsmál, opnunar- og lokunarskilyrði, að menn hafi verið að velta fyrir sér að opnunarskilyrði yrðu sett á sjávarútveginn. Það er líka komið inn á að gengið sé út frá því að umsóknarríki sæki um aðild og ekki sé hægt að fá varanlegar grundvallarundanþágur í stórum málaflokkum. Það er hægt að fá sérlausnir sem síðan er hægt að afnema.

Af því að töluverð umræða hefur verið um sjávarútvegsmálin langar mig að koma með nokkrar beinar tilvitnanir úr skýrslunni sem eru mjög skýrar, með leyfi virðulegs forseta:

„Stofnanir Evrópusambandsins hafa vald til þess að setja afleidda löggjöf í fiskimálum sambandsins í mjög víðtækum mæli. Þá fer Evrópusambandið eitt með óskiptar valdheimildir yfir varðveislu auðlinda í sameiginlegu fiskveiðistefnu sambandsins.“

„Meginreglan er að fiskveiðiskip sambandsins skulu hafa jafnan aðgang að hafsvæðum og auðlindum í sambandinu.“

„Einnig má telja óvíst að hægt verði að setja skilyrði um hömlur á framsal aflaheimilda til annarra en Íslendinga eða íslenskra fyrirtækja. Þá er ljóst að samningsumboð við lönd utan Evrópusambandsins, t.d. vegna veiða úr deili- og flökkustofnum, verður á hendi Evrópusambandsins en ekki einstakra ríkja.“

Þetta eru allt staðreyndir sem komið er inn á. Það er algjörlega ljóst samkvæmt skýrslunni, og það er rakið mjög vel, að Íslendingar munu ekki geta fengið varanlegar undanþágur frá þessum þáttum.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé ekkert í skýrslunni sem sýni fram á að hugsanlega sé það ekki rétt sem hv. þingmaður heldur fram, að hægt sé að fá (Forseti hringir.) varanlegar grundvallarundanþágur frá grunnstefnum Evrópusambandsins. Það er skýrt kveðið á um það í (Forseti hringir.) skýrslunni að það er ekki mögulegt.