143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[15:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Á köflum er umræðan til þess að gera nokkuð þröng miðað við það mál sem liggur fyrir. Við höfum skýrslu sem greinir afar marga þætti sem varða viðræður Íslands og Evrópusambandsins og aðlögunarferli sem hófst með ákvörðun Alþingis um að sækja um aðild sumarið 2009. Mikill hluti umræðunnar hefur farið í umfjöllun um afar takmarkaðan þátt sem lýtur að hinum svokölluðu sérlausnum eða undanþágum einkum á sviði sjávarútvegsmála. Ég held að sú umræða sé ekki ástæðulaus og ekki af hinu illa, alls ekki, en ég verð þó að nefna að ég held að skoða verði málin í víðara samhengi.

Skýrslan fjallar um marga þætti. Einn þátturinn lýtur að aðildarviðræðunum, undirbúningi þeirra og gangi. Í þeim hluta vekur athygli að þegar ákvörðun var tekin í júlí 2009 um að sækja um aðild virðist, miðað við þau gögn sem liggja fyrir í málinu, hafa verið byggt á tiltölulega óraunhæfum hugmyndum um hvernig viðræðurnar gætu gengið fyrir sig. Hér hefur nokkuð verið vísað til 18 mánaða tímafrestsins sem eins og menn þekkja kemur fram í viðauka við nefndarálit utanríkismálanefndar frá sumrinu 2009 þar sem fjármálaráðuneytið hefur það eftir utanríkisráðuneytinu að viðræður gætu klárast á 18 mánuðum. (Gripið fram í: Viðræðurnar „proper“ …) Viðræðurnar „proper“, já já, við erum stödd nokkrum mánuðum umfram það í dag. En þar er líka tímaáætlun í þessum efnum sem gerði ráð fyrir að viðræðuþunginn yrði á árunum 2010 og 2011. Við vitum hvar við erum stödd í dag eða öllu heldur hvar við vorum stödd þegar ríkisstjórnarskipti urðu síðasta vor.

Margt annað í þessu kemur ekki á óvart. Það er alveg rétt sem fram hefur komið í umræðum að margt sem lýtur að einstökum efnisþáttum, einstökum samningaköflum eða viðræðuköflum kemur ekki á óvart. Það sem vekur athygli í því er hvað í rauninni var verið að semja um lítið í þeim köflum. Margt af því var eitthvað sem við höfðum þegar aðlagast samkvæmt ákvæðum EES-samningsins. En maður veltir fyrir sér hvort það ferli sem þar er um að ræða er þess eðlis að hægt sé með réttu að kalla það samningaviðræður þar sem verkefnið af beggja hálfu snerist fyrst og fremst um það að Íslendingar voru að sýna fram á að þeir væru búnir að innleiða regluverk ESB.

Allan tímann var vitað að tvennt yrði erfiðast í viðræðunum, auðvitað fleiri þættir en tvennt sérstaklega, sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Fram hefur komið að á þeim sviðum hafi sennilega mest borið á milli löggjafar Evrópusambandsins og löggjafar hér á landi. Og þar yrði þörf á mestum tíma til viðræðna ef annaðhvort Ísland ætti að laga sig að reglum Evrópusambandsins á þeim sviðum eða, eins og ráða má af orðum ýmissa hv. þingmanna hér í dag, að Evrópusambandið ætti að laga sig að kröfum Íslendinga.

Það er alveg rétt eins og fram hefur komið að aldrei reyndi á þessa þætti þrátt fyrir að stefnt hafi verið að því í upphafi að þau mál yrðu sett í forgang, landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál. Hér hefur komið fram af hálfu þáverandi ríkisstjórnar að lögð var á það áhersla, a.m.k. mátti ekki ráða annað af orðum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áðan en að hann, og þar með ríkisstjórnin, hefði lagt sérstaka áherslu á það. Og ég hef ekki heyrt frá hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, að það sé vefengt á nokkurn hátt að áhersla íslenskra stjórnvalda hafi verið sú að þessi mál yrðu tekin fyrir fyrst en svo var ekki. Það gerir að verkum að fleiri endar eru lausir í dag en ella væri ef farið hefði verið að óskum íslenskra stjórnvalda og þau mál tekin fyrir fyrst og síðan þau atriði þar sem fyrst og fremst þurfti að haka við í einhver box til að athuga hvort Ísland væri búið að taka upp regluverkið, hvort það væri komið í framkvæmd.

Það verður að viðurkennast, eins og fram hefur komið í umræðunni, að ekki kom fram af hálfu Evrópusambandsins hvort það teldi að þau skilyrði sem ætla má að Íslendingar hefðu sett varðandi sérlausnir eða undanþágur eða hvað við köllum það, sennilega væri réttara að tala um sérlausnir einkum á sviði sjávarútvegsmála, gætu gengið upp af hálfu Evrópusambandsins.

Hér hefur verið vísað til þess að lengi hafi verið á sveimi hugmyndir um sérlausn sem fælist í því að Ísland yrði skilgreint sem sérstakt fiskveiðistjórnarsvæði. Er eitthvað frá Evrópusambandinu til sem bendir til þess að slík lausn sem gengur gegn grundvallarreglum Evrópusambandsins á sviði sjávarútvegsmála væri tæk? Er eitthvað sem bendir til þess? Ég held ekki. Það er kannski einmitt í svona atriðum sem skýrslan getur komið að gagni. Endanlegur sannleikur í sumum málum verður ekki leiddur til lykta með einhverjum skýrsluskrifum. Menn munu alltaf geta haldið áfram að rökræða einstaka þætti. Það sem við getum hins vegar ráðið af skýrsluskrifunum er að í stað þess að menn líti á möguleikana á sérlausn sem líklega niðurstöðu má með rökhugsun og hyggjuviti draga þá ályktun af því sem stendur í skýrslunni frá þeim fræðimönnum sem þar skrifa að það sé mjög ólíklegt.

Hvað sjávarútvegsmálin varðar sérstaklega — ég tek þau fyrir vegna þess að um þau hafa kannski fallið flest ummæli hér í dag. Á sviði sjávarútvegsmála er afdráttarlaust að yfirstjórn sjávarútvegsmála og æðsta vald á sviði löggjafar sjávarútvegsmála innan Evrópusambandsins er hjá Evrópusambandinu sjálfu, það er grundvallarregla. Eftir Lissabonsáttmálann er skýrt tekið fram að landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál séu meðal þeirra málaflokka þar sem Evrópusambandið hafi fullt löggjafarvald. Meira að segja er í enskum texta talað um „exclusive right“ til að setja reglur á þessu sviði. Það er ekki eins og í öðrum málaflokkum þar sem meira svigrúm er gefi fyrir aðildarríkin til að setja löggjöf af sínu tagi. Þetta er meðal þeirra málaflokka þar sem löggjafarvald Evrópusambandsins er hvað ríkast. Rétt er að hafa það í huga.

Einnig er rétt að hafa í huga, eins og vikið hefur verið að hér, þau markmið sem komu fram í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar frá júlí 2009 og hæstv. fyrrverandi ráðherrar hafa upplýst að hafi líka komið sterklega fram, jafnvel enn þá sterkar, í drögum að samningsafstöðu Íslendinga á sviði sjávarútvegsmála. Í þeim drögum að samningsafstöðu, ef við getum kallað það svo, er að finna afar mörg atriði sem ganga þvert á þær grundvallarreglur Evrópusambandsins sem það hefur eins og ég sagði áðan „exclusive right“ til að setja regluverk um.

Atriðin sem menn hafa nefnt hér eru þau að þrátt fyrir heimildir samkvæmt núgildandi sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins fyrir einstök ríki til að taka ákvarðanir um kvótaúthlutun innan lögsögu og annað þess háttar á eigin forsendum, þá er yfirstjórnarvaldið í sjávarútvegsmálum og ákvarðanir teknar árlega, á vettvangi Evrópusambandsins um hve mikið megi veiða og fleiri grundvallarákvarðanir á því sviði. Og er rétt að rifja upp að prófessor Stefán Már Stefánsson telur að túlka beri heimildir Evrópusambandsins til að taka ákvarðanir á því sviði rúmt, ekki þröngt. Þá er verið að vísa til ákvarðana sem varða varðveislu sjálfbærra auðlinda og þess háttar.

Í annan stað er ljóst, ekki er dæmi um neitt annað, að aðildarríki Evrópusambandsins framselja vald sitt til að semja um skiptingu stofna við þriðju ríki til Evrópusambandsins. Enginn minnist þess að hafa séð fulltrúa bresku ríkisstjórnarinnar, Skota eða Íra við samningaborð út af makríl. Þar koma Evrópusambandsríkin fram undir einum hatti. Þó að fulltrúar einstakra ríkja hljóti að fylgja með í bakherbergjunum er það Evrópusambandið sem þarf að tala einum rómi við samningaborðið í þeim efnum. Ísland hefði í makríldeilunni sem nú hefur staðið yfir um nokkra hríð verið í sömu stöðu og Írar, Skotar og eftir atvikum aðrir Evrópusambandsþegnar hvað það varðar en ekki haft sjálfstæða aðkomu að slíkri samningagerð. Menn geta velt fyrir sér hvað það þýði. Ég held að í reynd þýði það að fiskveiðiþjóð sem er í þeirri aðstöðu þarf fyrst að leita málamiðlunar við aðrar fiskveiðiþjóðir á vettvangi Evrópusambandsins áður en farið er að ræða við þriðju þjóðir. Í mínum huga felst hætta í því, það getur verið misjafnt eftir aðstæðum hvernig það kemur út en veruleg hætta er á því að hagsmuna fiskveiðiþjóðarinnar, í þessu tilviki Íslendinga, sé ekki gætt nægilega sterklega. Ég held að fyrir okkur flest væri það óæskilegt skref að afsala okkur samningarétti á sviði fiskveiðimála til alþjóðlegrar eða yfirþjóðlegrar stofnunar. En menn geta auðvitað haft aðra skoðun. Hvað sem því líður er ljóst að þetta er grundvallarregla í regluverki Evrópusambandsins á þessu sviði.

Í þriðja lagi er atriði sem mörgum finnst skipta verulegu máli, þ.e. að harla ólíklegt er, svo ekki sé meira sagt, að þær ríku takmarkanir sem nú gilda varðandi fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi gætu staðist yrðum við aðilar að Evrópusambandinu. Harla ólíklegt. Menn hafa mismunandi skoðanir á því hversu æskilegt eða óæskilegt það er. Ég held að fyrir flesta Íslendinga skipti þetta svolitlu máli. Ég held að óheftur aðgangur erlendra aðila að íslenskum sjávarútvegi veki ugg hjá flestum sem um þau mál hugsa. En það er vissulega virðingarvert sjónarmið í sjálfu sér að fullt frelsi eigi að ríkja á því sviði en ég hygg að mörgum mundi þykja það nokkuð erfið tilhugsun að erlendir aðilar yrðu ráðandi í íslenskum sjávarútvegi, sem er hugsanlegt. Við vitum að íslenskur sjávarútvegur er sterkur og hefur á undanförnum árum fjárfest töluvert utan landsteinanna en aðstæður geta breyst að því leyti og ég held að þetta sé atriði sem menn hljóta að velta vöngum yfir.

Eins og fram kom í orðaskiptum mínum og hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur fyrr í dag er auðvitað hugsanlegt að Evrópusambandið breyti grundvallarlöggjöf sinni á sviði sjávarútvegsmála til að búa til pláss fyrir Íslendinga. Ég er ekki viss um að hægt sé að líta svo á að nein þeirra fordæma sem vísað er til, bæði í skýrslum Hagfræðistofnunar og í umræðum hér, séu sambærileg að því leyti, því að ljóst er að ef Íslendingar ætluðu að gæta hagsmuna sinna á sviði sjávarútvegsmála, þá þyrfti miklu víðtækari undanþágur en aðrir hafa fengið í einstökum tilvikum sem hér er vísað til. Og jafnvel í tilvikum þar sem menn hafa talið sig vera að semja um eitthvað sem kalla má varanlegar lausnir, sérlausnir, þá hafa í mörgum tilvikum orðið breytingar á eins og rakið var í umræðunni í gær til dæmis, þar sem Kanaríeyjar höfðu í upphafi sérstakt fiskveiðistjórnarsvæði en nú er orðið, vegna breytinga sem hafa orðið á regluverki Evrópusambandsins, hluti af lögsögu Evrópusambandsins.

Þetta eru atriði sem þarf að hafa í huga. Ég er þeirrar skoðunar að þær upplýsingar sem liggja fyrir í skýrslum séu mjög mikilvægar, mjög mikilvægur grundvöllur umræðu á þessu sviði. Ég hygg að í framhaldi af þeim umræðum sem eiga sér stað að þessu leyti hljótum við að velta fyrir okkur með hvaða hætti Alþingi Íslendinga ætlar að bregðast við.