143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[15:22]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta kann að virka undarlegt af því að ég er að fara í ræðu hér á eftir en mig langar aðeins til að bera fram spurningu til hv. þingmanns, sem hér var að ljúka ræðu sinni. Ég hef verið að hlusta á þessa umræðu frá því að hún hófst, allar ræður, og alltaf er verið að koma með getgátur um niðurstöður. Það er mjög ólíklegt, að þetta og hitt gerist, það er mjög ólíklegt að við náum einhverjum breytingum, það er ólíklegt að við náum samningum.

Setjum okkur í þau spor sem við vorum í hér, hv. þingmaður og ég, árið 2007 og ræddum um Icesave af því að það er vinsælt að nota það í tengingunni. Hvað var talið líklegt og ólíklegt á þeim tíma? Er eitthvað því til fyrirstöðu að við látum reyna á þetta? Er eitthvað sem bannar okkur að fá svör við því, skilgreina samningsmarkmið, fara í viðræðurnar, ljúka þeim og sjá hvað kemur út úr þeim? Það er hægt að hætta við ef samningar nást ekki, ef þeir eru ófullnægjandi.

Mér finnst þetta gersamlega vanta í umræðurnar. Það eru allir að reyna að reisa múr; við skulum ekki reyna að klífa hann, við skulum ekki reyna að komast fram hjá honum, við skulum bara setjast á rassinn og bíða. Það er eitthvað annað sem liggur þar að baki en að vilja fá svör, kannski vegna þess að menn eru hræddir við niðurstöðuna.

Mér finnst skipta miklu máli að við komumst í þá stöðu, og ég mun koma að því betur í ræðu hér á eftir, að reyna að velta vöngum yfir því hvernig við komumst áfram þannig að við fáum svör. Þjóðin vill að við ljúkum viðræðunum og leggjum samning fyrir hana til afgreiðslu. Það var krafa fyrrverandi stjórnarandstöðu að við leituðum til þjóðarinnar. Þáverandi stjórn vildi það ekki en fellst á það núna sem málamiðlun og þá hopa menn.

Mig langar að heyra hv. þingmann svara þessu hér í stuttu andsvari.