143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[15:27]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að reifa málið með þessum hætti. Hann leggur það hreinskilnislega fram að hann er andstæðingur ESB óháð því hvað kemur út samningaviðræðum. Hann telur eðli málsins vera þannig að það eigi ekki undir neinum kringumstæðum að ganga í Evrópusambandið. Það er heiðarleg afstaða.

Það er líka alveg rétt sem hv. þingmaður segir að það er annar hópur sem telur skipta miklu máli að fá tækifæri til að vera í þessu sambandi, í því felist ótal tækifæri sem séu jákvæð fyrir okkur sem samfélag.

Þriðji hópurinn er svo sá sem vill fá svör, sem langar til að sjá betur og láta reyna á hvað er mögulegt að fá út úr stöðunni. Við erum komin í þá stöðu að vera með þjóð sem er, enn einu sinni, klofin til helminga í máli. Það er mikill meiri hluti fyrir því að ljúka viðræðum og láta þjóðina ákveða og láta reyna á hvað kemur út úr samningunum og það virðist vera minni hluti sem hefur fyrir fram þá afstöðu að vilja ekki ganga í Evrópusambandið. Ef við erum að leita að lausnum og erum að reyna að fá þessa skýrslu til að draga fram nýjar lausnir til að komast eitthvað áfram held ég að það hljóti að vera niðurstaðan að við reynum að fara þá leið að finna svörin, leyfum þjóðinni að ráða hver vegferðin verður og sætum niðurstöðunni hvort sem við verðum aðilar að Evrópusambandinu eða ekki. Þá getum við lagt málið til hliðar eða fylgt því til enda eftir því hver niðurstaðan verður og getum leyst málið til langs tíma í staðinn fyrir að hafa það endalaust sem bitbein, hvort sem er í þinginu eða úti í samfélaginu.

Núverandi ríkisstjórn leggur upp með að það þurfi að að eyða óvissu, það þurfi að fara að veita svör, það þurfi að fara að finna lausnir. Ekkert af því sem hér kemur fram er í þá veru. Mig langar að heyra betur hvort við getum ekki sammælst um að fara þá leið að (Forseti hringir.) finna svörin og fylgja þeirri leið jafnvel þótt menn nálgist málið frá ólíkum sjónarhornum.