143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[15:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það að reyna að teyma sjálfan sig og þjóðina áfram í átt til einhverrar niðurstöðu í þessum efnum byggi í raun og veru á óskaplegri óskhyggju, kannski svipaðri óskhyggju og ríkti í sölum Alþingis hjá þeim hópi sem taldi að samningaviðræðum mætti ljúka á örskömmum tíma vegna þess að það hafi gengið hratt hjá Norðmönnum, Finnum og Svíum 20 árum áður. Það var sem sagt ekki horft á það sem fyrir lá í regluverki Evrópusambandsins eða í breytingum á regluverki Evrópusambandsins heldur töldu menn að hægt væri að klára hlutina bara býsna hratt af því að einhverjir aðrir hefðu gert það 20 árum áður. Menn horfðu ekkert á þær lagalegu og stofnanalegu breytingar sem átt höfðu sér stað í millitíðinni, verulegar breytingar á lögum varðandi aðildarferlið.

Ég held að það sé í raun og veru mjög svipað uppi varðandi þessa óskhyggju, að mínu mati, um risavaxna sérlausn sem felst í því að Evrópusambandið umskrifi sína sjávarútvegsstefnu til að koma til móts við hagsmuni Íslendinga. Ég held að það sé einfaldlega verið að leiða fólk áfram með einhverju villuljósi. Ég held að óraunsæi og óskhyggja búi að baki málflutningi af þessu tagi. Aðrir geta haft aðra skoðun, en mér finnst miðað við þau rök, þau sjónarmið og þær samantektir sem liggja fyrir í umræðunni í dag að öll rök hnígi að því að sú töfralausn sem stundum hefur verið talað um af hálfu stuðningsmanna aðildar í sambandi við sjávarútvegsmál sé algerlega óraunhæf. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður, sem átti sæti í síðustu ríkisstjórn um langan tíma, varð einhvern tíma var við eitthvað (Forseti hringir.) sem gaf til kynna að Evrópusambandið ætlaði að umskrifa regluverk sitt til að koma til móts við okkur Íslendinga í þessum efnum.