143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[15:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrir utan að kunna utan að skilgreiningu Evrópusambandsins á eyju þá átti hv. þm. Birgir Ármannsson líka gullvæga yrðingu í ræðu sinni áðan sem er hugsanlega yrðing þessarar umræðu. Hann sagði réttilega: Sannleikurinn verður aldrei leiddur fram með skýrslugerð. Það er hárrétt hjá honum. Það er bara einn endanlegur stóridómur á það hvort hægt er að ná samningum sem við teljum ásættanlega í sjó og það er að láta á það reyna, það er að fara í það að reyna að ná samningum, bestu hugsanlegum samningum. Og ef þeir eru ásættanlegir að dómi framkvæmdarvaldsins sem þá yrði, er komið heim með þá og þeir lagðir í dóm þjóðarinnar.

Ég get svo staðfest það sem hv. þingmaður með óbeinum hætti var að spyrja mig að, að ég var nákvæmlega sömu skoðunar og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon um að það ætti að byrja sem fyrst á landbúnaði og sjávarútvegi. Það kom mörgum sinnum fram í skýrslum mínum til þingsins en það er líka að finna í flestum ræðum sem ég hef haldið á ríkjaráðstefnunum, sem er allar að finna á vefnum. Hv. þingmaður þekkir orsakirnar af hverju það tókst ekki, það var heimatilbúinn vandi að því er varðaði landbúnaðinn. Þar var einfaldlega þannig að það var pólitískur ágreiningur í ríkisstjórninni svipað og var í sænsku ríkisstjórninni á sínum tíma sem gerði það að verkum að ekki var farið að þeirri áætlun sem við höfðum samþykkt í ríkisstjórninni og við Evrópusambandið um hvernig haga ætti viðræðum í landbúnaði. Ekki var gerð aðgerðaáætlun sem var forsenda þess að við þyrftum ekki að breyta regluverki okkar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrir öllu því var gerð grein í þinginu. Það var ástæðan varðandi það mál. Ég hef síðan fyrr í ræðum mínum hér í dag farið yfir ástæður þess að málið þróaðist með þessum hætti í sjávarútvegi en ég get gert það aftur ef hv. þingmaður biður mig.