143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[15:54]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni þann heiður að fara í andsvör við mig áður en ég held ræðu, ég hef ekki kynnst því áður, reyndar ekki setið hér mjög lengi.

Mig langaði til að biðja þingmanninn, af því að hann vitnaði í fund sem hann segist hafa sótt, og ég ætla ekkert að efast um það, á vegum Bændasamtakanna, fræðslufund árið 2007. Við höfum haldið óskaplega marga fundi um landbúnað og Evrópusambandið, um matvælalöggjöf og slík málefni á undanförnum árum. Ég leyfi mér, þó að ég hafi skipt um hlutverk í lífinu, að þakka honum fyrir komuna á þá fundi og það gagnlega innlegg sem hann hefur oft lagt til.

Hann vitnaði sérstaklega í fund þar sem hafður hefði verið uppi málflutningur um taktík, hvernig takast ætti á við Evrópusambandsumræðuna. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann vilji þá ekki gera grein fyrir fleiri erindum sem voru flutt á þeim fundi. Má vera að norskur fulltrúi hafi lagt þessa áherslu í sínu erindi og ég efast ekkert um það, ég þykist vita í hvaða fund þingmaðurinn er að vísa. En þarna var líka fulltrúi frá Finnlandi sem var með allt aðra hlið og mér þætti bara fróðlegt ef þingmaðurinn vildi vitna um hvað kom fram í hans erindi.