143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er ég í þeirri stöðu að ég átti hvorki sæti í utanríkismálanefnd né ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili. Hafi spurningin verið óljós vildi ég segja: Lagt var upp með það af hálfu ríkisstjórnar á síðasta kjörtímabili að menn stefndu að upptöku evru og ekki var tekin ákvörðun um að leita neinna undanþáguleiða eða sérlausna í því sambandi. Ég er að velta fyrir mér, og spurningin var að því leyti tiltölulega einföld: Telur hv. þingmaður að sú niðurstaða hafi verið byggð á hagsmunamati, þ.e. að það væri þá hagfelldara fyrir Ísland að taka upp evru, eða ekki? Eða telur hann að það hafi verið gert vegna þess að það hafi verið mat manna að ekki væri möguleiki á því að komast hjá því að taka upp evru eins og önnur ný aðildarríki Evrópusambandsins þurfa að gera samkvæmt því regluverki sem nú er í gildi?