143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:29]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hluti af þeim bakgrunnsskjölum sem liggja að baki aðildarviðræðunum og undirbúningi Íslands og ná allt tíu ár aftur í tímann er margs konar úttektir á áhrifum Evrópusambandsaðildar á íslenskan landbúnað og íslenskar sveitir. Ég vona að við séum ekki að deila um forsendurnar sem þar eru gefnar en þessar úttektir segja okkur einfaldlega að það verður 40–50% samdráttur í tekjum bænda. Við getum alveg séð fyrir okkur hvaða afleiðingar það hefur. Hvort það sé áhætta fólgin í því að við ljúkum aðildarferlinu er kannski ekki stóra málið en þetta er áhættan sem við tökum fyrir sveitirnar með aðild.

Það sem vantar upp á, og ég kom að í lok ræðu minnar áðan, í þá fullyrðingu um að það hefði ekki verið svo erfitt að ná niðurstöðu í samningum um landbúnaðarkaflann er einfaldlega að menn undirbyggðu ekki á þessum tíma afstöðu Íslands og þær grunnvarnarlínur sem við þurftum að hafa til að passa að ekki færi illa. Þess vegna getur vel verið að það sé mjög auðvelt að ná samstöðu eða ná samningum við Evrópusambandið ef við ætlum að gera það eftir því sem stjórnvöld voru búin að skrifa.

Samsetning samningahópsins um landbúnað var mjög undarleg. Þar komu saman mjög margir hagsmunaaðilar sem höfðu ekki endilega hagsmuni af landbúnaði. Það tel ég meginveikleikann í undirbúningi landbúnaðarhlutans og hafi skaðað verulega hagsmuni Íslands og þess vegna segi ég: Ef það á að halda áfram á grunni þeirrar samningsafstöðu sem búið var að teikna upp, vitandi af þeirri þekkingu og niðurstöðum sem koma fram í úttektum sem höfðu verið unnar á árum áður og seinast 2009, er aðild að Evrópusambandinu óumdeilanlega stórskaði fyrir íslenskar sveitir.