143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:36]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var býsna fróðlegt vegna þess að í raunveruleikanum var ég að vekja athygli á því að það sem oft hefur verið kallað aðlögun var ekki krafa um annað en setja saman áætlun um hvernig aðlögun þyrfti að vera en engar breytingar þyrfti að gera strax. Hér kemur hv. þingmaður og er svo hressilegur að segja að betra hefði verið að fara í framkvæmdina, breyta strax. Það er út af fyrir sig sjónarmið en undirstrikar náttúrlega að það hefur ekki verið gert hingað til.

Varðandi þessar stofnanir þá skildi ég það þannig, hafandi hlustað á umræðuna í ríkisstjórn, að það væri nákvæmlega þetta sem hv. þingmaður er að benda á, að þurft hefði að aðlaga stofnanakerfið meira að íslenskum raunveruleika. Menn gætu ekki tekið eitthvert ákveðið stofnanakerfi frá Evrópusambandinu vegna smæðar okkar og sérstöðu og það hlýtur að hafa verið það sem hefur þá átt að ræða og skoða.

Mig langar aðeins að heyra almennt hvort, svo ég ítreki spurninguna, hv. þingmaður telji að hægt hefði verið að ná niðurstöðu í landbúnaðarmálunum og í öðru lagi, sem mér finnst vera mjög mikilvægt, hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér að ástæða sé til að birta þau drög að samningsmarkmiðum sem þó voru tilbúin. Hann upplýsir hér að ágreiningur hafi verið um samningsmarkmiðin. Það hafi verið þannig samsettur hópur að þar hafi ekki komið nægjanlega fram sjónarmið Bændasamtakanna eða atvinnugreinarinnar. Engu að síður liggja fyrir samningsmarkmið eða drög og ég tel mjög mikilvægt að það komi fram og menn fái tækifæri til að ræða það og skoða kosti og galla nú þegar við erum að meta stöðuna í framhaldinu.

Svo í lokin, af því að við höfum hv. þingmann með sérþekkingu, þá hefur það verið þannig að í flestum þessum umræðum hefur einhverju verið flaggað í byrjun, hvað ætti að skoða sérstaklega. Hverju var flaggað í þessu tilfelli? Var það ekki einmitt sérstöðunni vegna smæðarinnar, vegna landfræðilegrar legu og hversu harðbýlt landið væri o.s.frv.? Ef ég veit rétt var því alltaf flaggað sem kröfum í byrjun í umræðunni.