143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:38]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja að nákvæmlega það atriði sem þingmaðurinn endar á í spurningu sinni, sérstaða Íslands, veðurfarsaðstæður, fámenni, strjálbýli og þeir þættir, áttum við allan tímann að taka sérstaklega utan um. Við töluðum um það í upphafi en við gerðum það ekki. Við undirbyggðum aldrei vinnu okkar í ferlinu þannig að við værum að taka utan um það atriði á þann hátt sem við þingmaðurinn deilum algerlega skoðun á. Það er meginvandamálið.

Ég vil líka svara því hvort ætti ekki að birta þau drög að samningsaðstöðu sem voru komin í landbúnaðarmálum. Jú, það vil ég að verði gert. Hverju það breytir síðan um framhaldið veit ég ekki en ég hef alla vega þá þekkingu á samningsaðstöðunni að hún tók ekki utan um þá hagsmuni sem við erum þó sammála um, strjálbýlið og veðurfarsaðstæðurnar. Þó að við höfum oft fallið í þá freistni að tala um norðurslóðalandbúnaðinn er staðreyndin sú að þetta yrði nyrsti landbúnaður Evrópusambandsins við algerlega óþekktar aðstæður og þannig átti allan tímann að nálgast Evrópusambandið varðandi landbúnaðinn. Það tókst til dæmis aldrei í ferlinu að skilgreina landbúnaðarlandið. Út á hvað ætluðum við að greiða? Við gátum verið sammála um að greiða landsstyrkinn út á túnin, út á akrana, út á grænfóðursstykkin og alla þá hluti en áttum við að fara út í beitarhagana, áttum við að fara upp á heiðarnar? Þetta var risaverkefni sem aldrei fékkst nokkur botn í og það var til mikils skaða.

Ég vil segja aftur að mér finnst vont að við skyldum fara þá leið að semja um að við breyttum stofnanakerfinu eftir aðildina. Sjónarmið Evrópusambandsfulltrúanna sem ég vísaði í í ræðu minni árið 2010 var að það væru engar greiðslur, ekkert „system“ kæmist í gang nema þetta væri klárt. Þá ítrekaði ég að við ættum að fara í þær breytingar þannig að fólkið skildi hvað við þyrftum að gera. Mér fannst þetta vera ákveðin aðferð í pólitíkinni til að deyfa sýnileikann. Kannski var það pólitískur flótti (Forseti hringir.) að gera það því að mörg var pólitíkin í þessu og má meðal annars lesa í ágætri dagbók hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra hvernig Evrópusambandsumsókninni var haldið í gíslingu á móti rammaáætlun.