143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:55]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri auðvitað afleitt ef sú leið yrði farin. Þá stæðu stóru spurningar enn þá eftir og þeim væri ósvarað og kannski í 10 ár til viðbótar. Það eru margir sem vilja halda því fram að það sé hagur sterkra hópa i þjóðfélaginu að leiða þetta mál ekki til lykta en það sé hins vegar almannahagur að gera það vegna þess að með samningnum gætu fylgt lægri vextir, minni verðbólga, jafnvel nothæfur gjaldmiðill, afnám verðtryggingar, góð byggðastefna o.s.frv. Allt sem skiptir máli fyrir hag almennings í landinu. Það eru ákveðnir sterkir hópar, sem ég veit að hafa mikil áhrif innan Sjálfstæðisflokksins, sem sjá hag í því að halda þessum hlutum á sama stað og þeir hafa verið hingað til og vilja ekki horfa til framtíðar með regluverk Evrópusambandsins sem undirtón.

Ég er ánægð með vangaveltur hv. þingmanns. Ég vona að þær séu uppi og verið sé að ræða á þeim nótum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og að þeim takist að smita framsóknarmenn af þeirri hugsun þannig að við getum að lokum fundið góða lausn sem við getum sætt okkur við svo að þetta verði ekki stórt og óleyst deilumál miklu lengur en nauðsynlegt er.