143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:03]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt, ég gengst fúslega við því að ég hef margoft lýst því yfir að ég tel, bara af kynnum mínum af hv. þm. Brynjari Níelssyni hér í þinginu, að hann sé snjall lögfræðingur. Hitt er algjörlega rangt að ég hafi nokkru sinni vikið orðum að gáfnafari hans, enda tel ég að það þurfi frekari rannsóknar við [Hlátur í þingsal.] áður en ég get úttalað mig um það. Mér er það heldur ekki nægilegt að maður með hans atgervi segist ekki ætla að leggjast gegn því að skýrslan fari til nefndar. Hv. þingmaður á auðvitað að vera á bandi réttlætisins, þinghefða, hann er að sjálfsögðu góður íhaldsmaður og við eigum að halda í þá hefð að þegar miklar skýrslur koma til þingsins skili þingið ekki auðu heldur fari yfir þær. Sannarlega hefur komið fram í umræðunni að tilefni er til þess.

Hv. þingmaður lagði mér þá hugsun í huga í ræðu sinni áðan að ég teldi að hægt væri að finna sérlausn á þeim vanda sem varðar sjávarútveg. Hann spurði svo sem upp úr höfði sínu hvort hægt væri að gera það á skömmum tíma. Ég tel að svarið sé já. Fyrir því eru eftirfarandi ástæður:

Búið er að mola í sundur þau tvö sker sem voru í vegi þess að við gætum siglt inn í samningaviðræður um sjó. Hið fyrra, endurskoðun á sjávarútvegsstefnunni, er frá. Þar var meira að segja vikið í tveimur veigamiklum atriðum nálægt sjávarútvegsstefnu okkar. Síðan er makríldeilan frá, þ.e. hún er ekki lengur deiluefni milli Íslands og Evrópusambandsins. Að því er hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur upplýst er nánast sátt millum þessara tveggja aðila en frændur okkar og vinir Norðmenn eru þar frekir og erfiðir í taumi.

Það síðasta sem ég vil nefna er að það er mat stækkunarstjóra Evrópusambandsins eftir að makríldeilan komst á þetta stig að það sé skammur (Forseti hringir.) vegur í að sambandið geti lagt fram ásættanlegan samning í sjó. (Gripið fram í.)