143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:07]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég hef reynt að fylgjast með henni í allan dag og alveg frá því við byrjuðum á þessu. Ég hlustaði í gær á kynninguna á skýrslunni og get þakkað hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa látið gera skýrsluna þótt hún breyti kannski engu hvað hann varðar eða sýn hans á Evrópusambandið og þetta stóra mál sem er mjög stórt fyrir okkur mörg. Hér hef ég hlustað á marga mannvitsbrekkuna fara um víðan völl um Evrópusambandið, um undanþágur og lausnir, sérlausnir, og fyrrverandi formaður Bændasamtakanna, hv. þm. Haraldur Benediktsson, fór mjög vel yfir landbúnaðarmálin og annað. Það kemur margt í ljós og maður lærir mikið á að hlusta og reyna að átta sig á þessu.

Það sem mér finnst samt skipta svo miklu máli og hefur kannski ekki verið rætt nógu mikið í þessari umræðu er hvers vegna stjórnarflokkarnir, sem virðast ekki vera hlynntir aðild, sögðu það ekki bara í kosningabaráttunni. Af hverju sögðu framsóknarmenn og sjálfstæðismenn það ekki að þeir ætluðu að slíta þessum viðræðum? Það hefði verið hreinlegast, það hefði verið heiðarlegast. Hvað liggur að baki því? Af hverju settu þeir það í stefnuyfirlýsinguna að þeir ætluðu að útkljá aðildarviðræðurnar í þjóðaratkvæðagreiðslu? Það finnst mér mesta blekkingin í þessu. Mér finnst það ekki heiðarlegt.

Ég ber fulla virðingu fyrir skoðunum þeirra á þessu máli. Ég veit það líka og það hefur komið fram hérna, kom fram í máli hv. þm. Brynjars Níelssonar, að það eru skiptar skoðanir um þetta í Sjálfstæðisflokknum, það sýna skoðanakannanir okkur líka. Það hefur líka komið fram í ræðum og í viðtölum við þingmenn í fjölmiðlum að það sé svo hlægilegt að halda áfram viðræðum ef ekki er pólitískur vilji ríkisstjórnarinnar á bak við það. Til hvers erum við hér á Alþingi? Til hvers erum við kosin hér inn? Við erum fulltrúar þjóðarinnar og við eigum að fara eftir því sem hún segir. Í kosningabaráttunni var talað um að útkljá þetta, eftir þessa skýrslu með þjóðaratkvæðagreiðslu. (Gripið fram í: Nei.) Ekki kannski í Framsóknarflokknum, alla vega hjá Sjálfstæðisflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn er stór … (Gripið fram í: Í stjórnarsáttmálanum.) Já, það stendur í stjórnarsáttmálanum. Stendur það ekki? (Gripið fram í: Það verður haldið áfram. )Ha? Það á að útkljá þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. (BÁ: Nei, nei, ekki haldið áfram nema með þjóðaratkvæðagreiðslu.)Nei. (Gripið fram í.)

Eftir að hafa farið í gegnum skýrsluna, og ég viðurkenni fúslega eins og margir aðrir að ég hef ekki lesið alla skýrsluna, hef ekki náð því, ég er ekki það góður enn þá í þessu, þá er margt gott í henni og margt jákvætt, en það er alltaf verið að draga fram þetta neikvæða eins og undanþágur og annað, að við höfum engan séns á undanþágum. Vitum við það? Hvernig vitum við það? Mér finnst þessi umræða bara snúast um eitt: Klárum þetta. Fáum þetta bara út af borðinu í eitt skipti fyrir öll.

Mig langar að vitna í núverandi hæstv. forseta Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, sem skrifaði á blogginu sínu fyrir nokkuð mörgum árum síðan þar sem hann talar um Sjálfstæðisflokkinn og ESB. Hann segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haldið fram þeirri bábilju að við mundum tapa öllum fiskaflanum ef við færum inn í ESB. Hann segir frá fundi sínum við Klaus Grube, sem þá var sendiherra Dana í höfuðstöðvum ESB og var í forustu um endurskoðun á sjávarútvegsstefnu sambandsins og talinn meðal hörðustu samningamanna, þar sem hann segir að Íslendingar muni aldrei tapa þessu, það sé ekkert sem bendi til þess. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ég og aðrir sem höfum reynt að brjóta sjávarútvegsþáttinn til mergjar á fordómalausan hátt höfum ævinlega komist að sömu niðurstöðu: Íslendingar munu ekki tapa fiskafla þó þeir gengju í ESB. Mér vitanlega er þetta hins vegar í fyrsta sinni sem svo háttsettur sérfræðingur innan ESB segir þetta afdráttarlaust á formlegum fundi með Íslendingum.“

Hann heldur áfram ef ég má, með leyfi forseta:

„Viðhorf sérfræðingsins er auðvitað í algerri andstöðu við það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið fram. Flokkurinn hefur staðið eins og hundur á roði á þeirri bábilju að aðild þýddi að landhelgin galopnist fyrir útlendingum.“

Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Nú liggur það fyrir frá einum af helstu sérfræðingum sambandsins að staðhæfingar sjálfstæðismanna um þetta eru tóm vitleysa. Sjálfstæðismenn hafa ranglega notað sjávarútvegshagsmunina til að stífla umræðuna. Þeir verða að hafa betri rök, eða slaka út fordómunum og taka upp málefnalega umræðu. Nú er einmitt rétti tíminn fyrir þá.“

Ég segi að núna sé líka rétti tíminn fyrir sjálfstæðismenn að tala um þetta á fordómalausan hátt.

Hann vitnar í viðtal við Davíð Oddsson sem þá var formaður Sjálfstæðisflokksins þar sem hann er spurður um Evrópusambandið, og segir, með leyfi forseta:

„Evrópusambandið við þessa miklu stækkun — ég tala nú ekki um ef Tyrkland verður komið inn í Evrópusambandið — það verður allt annað Evrópusamband heldur en við erum að sjá í dag. Það verður ekki hægt að miðstýra því jafn smásmugulega þá eins og nú. Þannig að útvíkkun Evrópusambandsins gæti breytt því í Evrópusamband sem Íslendingar gætu hugsanlega talið sig eiga möguleika á að vera í.“

Þetta er ný nálgun, segir Einar K. Guðfinnsson í bloggi sínu um þetta.

Mig langar að enda þetta á eftirfarandi tilvitnun vegna þess að mér finnst hún algjör lykilpunktur í þessu öllu saman þó að þetta sé skrifað fyrir dálítið mörgum árum síðan (Gripið fram í: Tíu árum.) Já, tíu árum eða níu. Með leyfi forseta:

„Stækkunin, skipbrot stjórnarskrárinnar, og nýjar upplýsingar um afleiðingar fyrir fiskveiðihagsmuni okkar ætti því að verða hugsandi mönnum innan flokksins tilefni til að skoða Evrópumálin upp á nýtt — og þróa þá hugsun sem birtist í orðum formannsins í janúar. Evrópumálin þurfa allir flokkar – ekki síst stærsti flokkur þjóðarinnar — að skoða án fyrir fram gefinnar niðurstöðu eða hleypidóma.

Þetta er það sem mér finnst hafa einkennt umræðuna í dag hjá sérfræðingunum í Evrópusambandsmálunum, hleypidómar og fyrir fram gefin niðurstaða.

Ég held áfram:

„Hugsanlega kæmust menn að því að ESB og við eigum ekki samleið — en við getum ekki tekið þá ákvörðun nema eftir skoðun og með rökum. Sú skylda hvílir á stjórnmálamönnum að skoða af fullri ábyrgð allar leiðir sem hugsanlega gætu fært Íslandi meiri velsæld í framtíðinni.

Sjálfstæðismenn þurfa því að skoða hvað er handan hurðarinnar sem formaður flokksins þokaði frá stöfum í janúar 2005.“

Mér finnst þetta lýsa algjörlega því sem við erum að fást við í dag. Við getum ekki verið með hleypidóma og gefið okkur fyrir fram niðurstöðu um hvort við fáum sérlausnir í sjávarútvegi eða ekki. Það er kýrskýrt í huga þess sem hér stendur að ég samþykki ekki inngöngu í Evrópusambandið ef það kostar að við þurfum að gefa eftir yfirráð yfir fiskimiðum okkar í kringum Ísland. Mun aldrei gera það. Hef alltaf talað skýrt um það.

Ég hef alltaf litið á þetta ferli, þessa aðildarumsókn, — mér er alveg sama hvað á að kalla þetta, aðild, aðlögun eða eitthvað, það er alltaf verið í þessum endalausu orðhengilshætti um hvað þetta er — við vorum bara að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það er skylda þeirra sem eru við stjórn hverju sinni að leggja sig alla fram við það að ná sem bestum samningi.

Mestu vonbrigðin í þessu ferli öllu eru að ekki skuli vera búið að klára þetta og það skyldi ekki takast að klára það á síðasta kjörtímabili. Fyrir því eru margar ástæður sem hafa verið raktar hér af fyrrum stjórnarliðum í dag. Ég trúi því, ég verð að trúa því. En ég varð fyrir miklum vonbrigðum að við skyldum ekki ná að klára málið og fá niðurstöðu í það hvernig staða okkar yrði.

Ég horfi líka á þetta út frá mér sem hef búið í þessu landi í 52 ár, verkamaður mest allt mitt líf, og þurft að horfa upp á þessa krónu og hvernig hún hefur farið með okkur, hvernig fjármagnsflutningar hafa verið innan kerfisins í samfélaginu með gengisfellingum á krónu. Hún hefur fallið um einhver 2.300% síðan við tókum hana upp. Er þetta ásættanlegt? Hafa menn einhverjar aðra lausn? Ég hef ekki séð hana hjá þessari ríkisstjórn, með fullri virðingu fyrir henni, ég ber töluvert mikla virðingu fyrir þessari stjórn og lít ekkert endilega á mig sem stjórnarandstæðing og hef margoft sagt það. Ég hef hvatt hana til góðra verka og að sýna auðmýkt í störfum sínum, en á það hefur ekki verið hlustað, því miður. Er hún með einhverja aðra lausn? Er hún búin að leggja hana fram fyrir okkur?

Ég tel þetta vera eitt mesta hagsmunamál heimilanna í landinu. Mér finnst það. Lækka hér vextir? Verður hér lág verðbólga? Getur maður keypt hús og jafnvel borgað það meðan maður lifir? Ég tók lán 2005 af því mig langaði að eignast hús eins og svo marga Íslendinga. Ég varð að taka 90% lán til þess að komast í það, ég var bara verkamaður, átti ekki bót fyrir — ja, þrátt fyrir að þræla fimmtán tíma á sólarhring eru launin bara þannig í þessu landi, sérstaklega í fiskvinnslu, að maður getur það ekki öðruvísi. Þannig að ég tók 11,5 millj. kr. lán. Í dag er lánið 20 milljónir, út af falli krónunnar. Mér er sagt af fróðum mönnum sem hafa reiknað út fyrir mig að ef við hefðum verið í Evrópusambandinu og með evru, í myntsamstarfinu, stæði lánið mitt núna hugsanlega í 8,5 milljónum og ég ætti hugsanlega 6–7 milljónir í húsinu mínu. Ég sé aldrei fram á að geta borgað þennan 40 ára gamla spýtukofa sem ég keypti mér. Ég velti fyrir mér: Hvað á ég að segja við börnin mín? Hvað á ég að segja við unglinga og ungt fólk í þessu landi, horfandi upp á það sem er búið að gerast hér áratugum saman á Íslandi? Í þessu góða landi samt, þessu frábæra landi sem við búum í sem er svo stútfullt af auðlindum. Ég hef búið úti í Danmörku og hef farið víða en það er ekkert sem jafnast á við Ísland. Hér höfum við hreint vatn, heitt vatn, við höfum sundlaugar í hverjum bæ og við erum með heita potta — hvílíkur lúxus. En þetta er aðalmálið. Hvernig eigum við að halda áfram með þessa stöðu hérna?

Ég hitti unga stjórnmálafræðinema um daginn, stóran hóp. Stærsti hluti þeirra getur ekki hugsað sér að búa á Íslandi í framtíðinni út af því hvernig staðan er í þessum málum.

Ég er enginn sérfræðingur. Ég á margt ólært. Ég hef hlustað á menn tala hér í dag í ræðustól, hv. þingmenn sem hafa mikið vit á hlutunum og eru búnir að vera hérna í mörg ár og þekkja Evrópusambandið jafnvel út og inn og allt þar fram eftir götunum. Það hefur líka komið fram í þessari umræðu að það sé ekkert svo erfitt fyrir okkur að semja við Evrópusambandið, það sé eiginlega allt klárt nema sjávarútvegskaflinn. Við eigum bara að láta reyna á hann. Fáum við sérlausnir eða ekki? Málið er einfalt. Við erum búin að vera í þessari vegferð síðustu fjögur ár. Ég segi bara: Það er skylda okkar að klára þetta.

Þessi skýrsla færir mér heim sanninn um það, þótt ég sé ekki sérfræðingur í þessum málum, að við getum alveg klárað þetta og það er engin ástæða til að slá þetta af borðinu. Að mínum dómi þurfum við ekki einu sinni að fara með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við eigum bara að halda áfram, klára samninginn og leggja hann fyrir þjóðina. Við erum kosin á þing til að verja hagsmuni þjóðarinnar, verja verðmæti og auðlegð okkar og eigum alltaf að finna besta kostinn. Hvað er best fyrir land og þjóð? Getur það verið að fara inn í Evrópusambandið? Ég veit það ekki. Ég velti því fyrir mér af hverju menn eru svona ofsalega hræddir við að láta reyna á þetta.

Svo er það landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn. Ég segi: Við erum með besta sjávarútveg í heimi, einn best rekna sjávarútveg í heimi, sem hefur skilað gríðarlegum hagnaði á síðustu árum. Þegar við komum inn í Evrópusambandið höfum við eitthvað að segja með sjávarútvegsstefnuna. Þeir eru farnir að líta til okkar, farnir að ráða sérfræðinga, Íslendinga, til þess að velta fyrir sér ráðum gegn ofveiði og öðru. Ég er alveg viss um að íslenskir útgerðarmenn mundu verða ráðandi í sjávarútvegi í Evrópu á næstu árum ef við færum þar inn. (Gripið fram í: Þeir eru það nú þegar.) Þeir eru það líka nú þegar, já. Samherji veiðir stóran hluta af kvóta Evrópusambandsins.

Ég átta mig ekki alveg á þessu, ég verð að segja það eins og er. Ég velti fyrir mér hverra hagsmuna er verið að gæta. Er verið að gæta hagsmuna allrar þjóðarinnar eða er það einhver afmarkaður hópur sem nýtur alltaf góðs af krónunni þótt hann geri t.d. allt upp í evru? Stór hluti af sjávarútvegsfyrirtækjunum gerir bara upp í evru, öll þeirra viðskipti fara fram með evru. Ekki fáum við það. Svo borga þeir fólkinu sínu með krónu.

Einhvern tímann sagði góður maður að íslenska krónan væri nauðsynleg til þess að lækka óæskilegar kauphækkanir hjá fólki án blóðsúthellinga. Mig minnir að það hafi verið Vilmundur Jónasson landlæknir sem sagði þetta. Þetta er einmitt málið. Þess vegna vilja þeir halda í krónuna til að taka til baka af fólkinu peninga sem það nær í gegn með harðri baráttu. Ég man eftir þessari hörðu verkalýðsbaráttu þar sem menn héngu í samningaviðræðum vikum saman, nánast dauðir að lokum, svo var fagnað með tertum. Tveimur dögum seinna var búið að ná þessu til baka með gengisfellingu.

Þetta snýst um það. Þetta snýst um hvernig við, fulltrúar þjóðarinnar, vinnum fyrir þjóðina. Alla. Ég held að sjávarútvegsmenn og útgerðarmenn þessa lands þurfi ekki að vera neitt hræddir við að fara í Evrópusambandið. Ég hef greinilega miklu meiri trú á þeim en margir aðrir hérna og þeir sjálfir jafnvel, en þeir hafa það svo rosalega fínt og hafa alltaf haft það fínt. Skiptir engu máli þó krónan falli og allt gerist, þeir standa alltaf í lappirnar, alltaf þurrir í fæturna, halda öllu sínu á meðan verkafólkið og við, hinn almenni borgari, borgum allt heila klabbið.

Ég held ekki að Evrópusambandið sé algjört himnaríki á jörð en ég segi það alveg hreint að við eigum að skoða það. Þetta er valkostur sem við eigum að leyfa þjóðinni að taka þátt í að ákveða hvort hún vill eða ekki. Um það snýst málið.