143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Tilvitnunin í Jón Sigurðsson sem hér var rakin er tilvitnun í mann sem var að berjast fyrir því að löggjafarvald Alþingis væri tryggt vegna þess að löggjafarvaldið lá ekki hjá fulltrúasamkomunni á þeim tíma og Alþingi var einungis ráðgefandi. Það er því ekki hægt að nota þetta, þó að allir taki undir þau orð, sem sérstaka röksemd fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, heldur því að einungis þjóðkjörnir fulltrúar geti tekið ákvörðun um þá mikilvægu þætti sem þarna er verið að rekja, en ekki fulltrúar einvaldskonungs eða einhverjir aðrir slíkir.