143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:28]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom þar inn á ýmislegt og var tíðrætt um sérhagsmuni og almannahagsmuni og hvernig það tvennt rekist á í umræðunni um Evrópusambandið og að hugsanlega séu einhverjir valdamiklir hópar sem vilji halda okkur frá þeim góðu lausnum sem mundu nýtast í almannaþágu sem hægt er að fá í gegnum Evrópusambandið.

En fyrst og fremst langar mig til þess að spyrja hv. þingmann, af því að hann er nú fyrrverandi sveitarstjórnarmaður, út í þá þróun sem verið hefur í Evrópusambandinu varðandi byggðastefnu og þá skuldbindingu sem þar er til þess að vinna að efnahagslegum stöðugleika og þróun á þeim svæðum sem þess þurfa. Ég og hv. þingmaður vorum saman á íbúafundi í Skaftárhreppi fyrir stuttu þar sem farið var yfir vandamál byggðanna þar, sem er mjög brothætt mál. Ef við værum nú í Evrópusambandinu og værum með þá stefnu sem þar ríkir væri einmitt möguleiki fyrir Skaftárhrepp að sækja sér styrki, sækja sér stuðning við nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefni og byggja upp þessa byggð, af því að grunntónninn í Evrópusambandinu er að jafna stöðuna á milli svæða.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hann sæi fyrir sér stöðu brothættra byggða bæði í því sjóðakerfi og þeim möguleikum (Forseti hringir.) sem byggðastefna Evrópusambandsins gefur?