143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:37]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Þetta er dálítið merkileg umræða. Hér er ekki verið að taka til umræðu skýrslu þar sem á eftir fylgir ákvörðun, heldur fyrst og fremst umfjöllun um skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur dregið saman og er um margt fróðleg. Hún segir kannski ekki allan sannleika og svarar ekki öllum spurningum en hún fjallar um þá áríðandi spurningu sem við stöndum frammi fyrir, hugsanlega aðild að Evrópusambandinu.

Ég ætla að segja það hér og nú að minn flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, á á margan hátt glæsilegan feril í því að Ísland hefur gerst aðili að flestum meginsamtökum Evrópu og heimsins sem hafa haft áhrif á þessari öld. Ég ætla að byrja á því að nefna að Ísland varð fljótlega eftir lýðveldisstofnun aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum. Með aðild að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum afsalaði Ísland sér ákveðnum fullveldisrétti, þ.e. rétti til gengisfellinga að vild. Þetta var stór og mikil ákvörðun á sínum tíma. Ísland gerðist hins vegar ekki stofnaðili að Sameinuðu þjóðunum á sama tíma, það dróst fram yfir lok styrjaldar þar sem Ísland neitaði að lýsa yfir stríði á hendur Þjóðverjum vegna hlutleysis, hlutleysisyfirlýsingar sem landið taldi sig bundið af.

Seinni heimsstyrjöldinni lauk með skilyrðislausri uppgjöf Þjóðverja, það voru aldrei gerðir friðarsamningar, ekki beinir friðarsamningar. Friðarsamningarnir eru að mínu áliti bundnir í öðrum hlutum. Þeir eru bundnir í þeirri efnahagssamvinnu sem hófst fljótlega eftir að stríðinu lauk þar sem þjóðir Evrópu stofnuðu Kola- og stálbandalagið, upphaflega Frakkland og Þýskaland líklega sem vildu blanda saman efnahagslegum hagsmunum til þess að þjóðirnar yrðu háðar hvor annarri efnahagslega þannig að þær gætu ekki farið í stríð.

Lífið hélt áfram og 1947, ef ég man rétt, varð Ísland stofnaðili að OECD, ekki vegna áhuga á þjóðhagsreikningum heldur fyrst og fremst vegna þess að íslenskir ráðamenn vildu opna fyrir alla möguleika til þess að efla markaði fyrir fiskafurðir í útlöndum. Á sama ári, 1947, hófst Marshall-áætlunin og Ísland var þar þiggjandi, verulegur þiggjandi.

1949 gerast stórir atburðir. Þá gerðist Ísland stofnaðili að NATO. NATO er mjög merkileg stofnun og það urðu verulegar deilur hér á landi um aðild að henni. Ég ætla ekki að rifja þær upp en ég ætla hins vegar að rifja upp orð fyrsta framkvæmdastjóra NATO. Hann sagði tilgang NATO vera þrenns konar; að halda Rússlandi úti, Bandaríkjunum inni og Þýskalandi niðri. Þetta eru orð Ismay lávarðar.

Hér á landi urðu deilur við þinghúsið og þjóðin skiptist í flokka og það voru aðilar sem gengu hér göngur bæði úr Hvalfirði og Keflavík til Reykjavíkur og söngluðu: Ísland úr Nató og herinn burt. Ég varð vitni að því að einn þeirra sem söng þennan söng fór á hátíðarsamkomu í Tékkóslóvakíu þegar eitt af aðildarríkjum Varsjárbandalagsins gekk í NATO, þ.e. þegar Tékkland gekk í NATO, þannig að umskiptin eru nokkur. Það hefur tekist að halda Rússlandi úti en bandalagsríki Rússlands í Varsjárbandalaginu hafa öll gengið í NATO.

Ég rifja þetta upp vegna þess að það tók Ísland nokkurn tíma að taka þátt í efnahagssamvinnu, fyrir utan OECD varðandi útflutning á fiski, og kunna þar að valda einhverju landhelgisdeilur án þess að ég geti rakið það í smáatriðum. En fyrsta skref Íslendinga að aðild að alþjóðlegum samtökum til að draga úr tollum til þess að auka utanríkisviðskipti var aðild að EFTA. EFTA eru fyrst og fremst samtök til að efla viðskipti með iðnaðarvörur. Í þeim samningi er skotið inn 500 tonnum af lambakjöti til Noregs. Í samningnum þurfti náttúrlega að taka á sérhagsmunum landbúnaðar og þetta skiptir verulegu máli fyrir það sem á eftir kemur, vegna þess að öll þessi umræða hér í dag snýst um hvernig eigi að taka á hagsmunum tveggja atvinnugreina, sjávarútvegs og landbúnaðar.

Nú er landbúnaður með u.þ.b. 1% af landsframleiðslu. Eigum við að láta allt standa og falla með 1% af landbúnaðarframleiðslu? — Það er nú sjaldgæfur heiður að hæstv. utanríkisráðherra hlusti á mig í ræðustól, þakka þér fyrir það. (Utanrrh.: Hlusta alltaf.) Á landbúnaður að ráða hér úrslitum? Við höfum náttúrlega borið hagsmuni sjávarútvegs fyrir brjósti alla tíð og við höfum ekki náð að opna þann kafla þannig að við vitum í rauninni ekkert hvar við stöndum þar en hér stöndum við þó og deilum hart um það.

Það segir hér í skýrslunni góðu, með leyfi forseta:

„Hvað varðar sjávarútvegskaflann er mikilvægt að árétta að þegar viðræðunum var frestað hafði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ekki lagt fram rýniskýrslu sína og Ísland gat því ekki lagt fram formlega samningsafstöðu sína í sjávarútvegi. Þar sem samningsafstaða Íslands lá ekki fyrir er erfitt að átta sig á hver framvinda viðræðnanna hefði orðið en ljóst er að erfitt hefði verið að semja út frá þeim áherslum sem lagðar eru í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar sem lagt var fram þegar Alþingi samþykkti að sækja um aðild.“

Ég ætla ekki að segja til um það hver niðurstaðan hefði orðið en ég tel hins vegar að það hefði verið eðlilegt að klára þessar viðræður og fá fram afstöðu sambandsins og að afstaða Íslands hefði verið opnuð þannig að við mundum vita um hvað málið snýst.

Ég hef reynt að rýna í gegnum þessa skýrslu og hún er góð til síns brúks, rekur atburðarás, lýsir regluverki, en hún er ekki mat á stöðunni í dag, hún er ekki mat á stöðunni í ferlinu, hún er ekki mat á ávinningi og hún er síst af öllu mat á framtíðinni. Ég ætla ekki að hugsa aftur á bak, ég ætla að hugsa áfram, ég ætla að hugsa fyrir ungt fólk á Íslandi og hugsa fyrir framtíðinni. Við erum í ákveðinni kyrrstöðu núna og ef við getum aukið og bætt okkar stöðu með framsýni, t.d. eins og þegar við gengum í Alþjóðaflugmálastofnunina, er það gott. Það var mikil framsýni 1944 þegar Ísland gerist stofnaðili að Alþjóðaflugmálastofnuninni. Eftir því sem ég man best voru hér líklega 25 flugskírteinishafar en Ísland lagði það á sig að fara til Chicago 1944 til þess að taka þátt í því að stofna Alþjóðaflugmálastofnun af framsýni.

Sjávarútvegurinn skiptir okkur mun meira máli en landbúnaðurinn. Landbúnaðurinn á í sínum ógöngum núna fyrir utan Evrópusambandið og ekki veit ég hvernig hann ætlar að leysa sín mál. Þegar hv. þm. Haraldur Benediktsson fjallaði um landbúnaðinn hér áðan kom fram að samningsafstaða Íslands var að miklu leyti mótuð af Bændasamtökunum en hún var ekki mótuð af íslenskum neytendum, sem þurfa þó að borða framleiðsluna. Ég held að það væri ráð að spyrja neytendur. Íslenskur landbúnaður er í ákveðnum ógöngum og hann getur ekki leyst sín vandamál með því að framleiða skyr til neyslu í Finnlandi.

Sjávarútvegurinn hér á landi telur u.þ.b. 10% af landsframleiðslu. Hann telur líklega um 38–40% af útflutningsframleiðslu. Sjávarútvegurinn skiptir verulegu máli og hann hefur hér ákveðna sérstöðu. Ef við berum saman glæsta framleiðslu Þýskalands á bílum þá er bílaframleiðsla í Þýskalandi ekki nema 2–3% af landsframleiðslu þannig að sérstaða sjávarútvegsins hér er nokkur.

Hér segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Reynsla annarra þjóða sýnir að erfitt hefur reynst að fá varanlegar undanþágur frá sameiginlegri stefnu Evrópusambandsins enda þýðir aðild að land tekur upp hina sameiginlegu stefnu. Hægt er að fá tímabundnar undanþágur en þær eru teknar upp í gerðir sambandsins og breytingar á þeim verða einungis gerðar á grundvelli þess. Þegar um er að ræða sérlausnir, sem kann að verða samið um, þarf að taka skýrt fram í aðildarsamningi um það ef þær eiga að verða varanlegar“

Ég hef ekki fengið svarið við því hvort þessar sérlausnir kynnu að verða varanlegar og við því vil ég fá svar. Ég minni á það að við Íslendingar höfum lengi leitað eftir sérlausnum í Evrópusamvinnu. Þannig segir í Árna sögu biskups frá atburðum 1281, með leyfi forseta:

„Þér biskuparnir heimtið tíund af sylgjum og silfurbeltum, koppum og keröldum og öðru dauðu fé, og undra ég mig, hví landsbýið þolir yður slíkar óhæfur, og gerið eigi norræna tíund aðeins, þá sem gengur allan heiminn og ein saman er rétt og lögtekin.“

Árni biskup svarar, og hann er búinn að fá undanþágu, varanlega undanþágu:

„Af orðum Innocentíusar páfa vitum vér að sú tíundargerð er ei okur og vinnur öngvum manni sálutjón.“

Við höfum því náttúrlega verið undanþágufólk í Evrópu allar götur frá 1200, 1300. Ég held að tillit verði tekið til þeirrar sérstöðu.

Mig óar hins vegar við þeirri framtíð sem við mér blasti í tíufréttunum í gærkvöldi þegar ég hugsaði til Þjóðbrókar mikillar — það var þáttur hér í útvarpi sem var kallaður Þjóðbrók — þ.e. þegar herferð Heimssýnar, samtaka gegn hugsanlegri Evrópusambandsaðild, hófst á Sauðárkróki. — Hvar er hæstv. utanríkisráðherra, hann er farinn? (Gripið fram í.) En mig óaði við þeirri framtíð. Og ég óska að svo verði ekki. Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég horfði á fréttirnar voru orð Þorgeirs Hávarssonar í Gerplu: „Eg em íslenskur maður … og fýsir mig lítt að fara að siðum annarra manna.“

Kannski erum við Íslendingar ekki hæfir í samfélagi þjóðanna og getur vel verið að það verði afstaða manna. Ég veit að ég tala hér þvert á afstöðu flestra þingmanna Sjálfstæðisflokksins og ég leyfi mér það. Hins vegar vil ég vekja athygli á því að það eru margir sjálfstæðismenn, sérstaklega í stétt atvinnurekenda og þeirra sem bera ábyrgð á lífskjörum fólks í þessu landi, sem eru annarrar skoðunar en meginhluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Ég stend með íslensku atvinnulífi og með vinnandi fólki og vil hag þess sem bestan. Ég vil að þeir einstaklingar sem munu búa í landinu eftir minn dag búi í góðu landi og þess vegna óska ég eftir því að þessum aðildarviðræðum verði lokið með því að það verði samið og ef samningar takist ekki þá nær það ekki lengra. Þá verðum við bara að lappa upp á þann samning sem kallaður er samningur um Evrópska efnahagssvæðið og er náttúrlega bráðabirgðagjörð. En guð forði mér frá því sem var að gerast á Sauðárkróki í gær.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.