143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:54]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði efnislega að þessi skýrsla væri hér lögð fram til umræðu. Ég fæ ekki séð að það sé hægt að taka ákvörðun um hana. Hún er ekki þingsályktunartillaga og ekki lagafrumvarp þannig að þingið kann að taka þá ákvörðun að senda skýrsluna til utanríkismálanefndar til umfjöllunar. Ég átta mig ekki á því hver sú umfjöllun ætti að vera og hver niðurstaða utanríkismálanefndar kynni að verða og get sagt það eitt að ég veit ekki hvert framhaldið verður. Ég sagði það í minni fyrstu ræðu um Evrópumál hér í haust að ég teldi að þar sem þingsályktunartillaga lægi fyrir um aðildarumsókn ætti að liggja fyrir önnur þingsályktunartillaga um framhald eða slit.

Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að núverandi stjórnarmeirihluti hefur ekki mikinn áhuga á að semja. Það eru einstaka þingmenn í Sjálfstæðisflokknum sem hafa áhuga á samningi, en eins og ég segi átta ég mig ekki almennilega á því hvert framhald skýrslunnar er.

Ég hef lokið máli mínu.