143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:13]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Svo hljóðaði hið heilaga orð, amen eftir efni Framsóknarflokksins. Þetta var nokkuð föst skoðun og ekki gefið neitt einasta rými til þess að hugsa, allt gefið fyrir fram. Hv. þingmaður segist hafa lesið þessa skýrslu, ég dreg það ekki í efa. Ég er sammála henni að það var töluverður skandall að menn fengu ekki meiri tíma til að lesa en raun bar vitni, sérstaklega við í stjórnarandstöðunni.

Hv. þingmaður les upp úr skýrslunni og segir að það sé meginregla að ríkið verði að taka upp allt regluverk ESB óbreytt. Prófessor í stjórnskipunarfræði ritar merkasta kaflann eða viðauka skýrslunnar. Hann telur upp fjórar gerðir undanþágna eða frávika; tímabundna, ótímabundna undanþágu, varanlega undanþágu, breytingu á reglum áður en ríkið gengur inn og sérlausnir. Hann slær í gadda að unnt er að fá sérlausnir og hann rekur dæmi um það. Svo kemur hv. þingmaður og segir að svart sé hvítt. Þetta er það sem fram er borið.

Lítil ríki, af því að hv. þingmaður talaði um Kanaríeyjar og ýmsar eyjar og annes — við höfum aldrei nýtt það, við höfum aldrei nýtt það í umræðunni. Hins vegar get ég upplýst hv. þingmann um að eyríki hafa fengið varanlegar undanþágur, m.a. varðandi skattalög og ýmislegt fleira sem varðar þjónustuiðnað sem er jafn mikilvægur fyrir þá og fiskveiðarnar á Íslandi.

Maður heitir Per Ekström, ég talaði við hann í gær, hann var ráðuneytisstjóri á Álandseyjum. Hann sá um samningana við ESB á sínum tíma. Hann sagði mér frá þessu. Ég finn þetta hins vegar ekki í skýrslunni. Ég vissi það svo sem fyrir fram. Þar fengu Álandseyingar til dæmis ótímabundnar undanþágur varðandi skattalög af tilteknum þjónustuiðnaði sem að hans sögn eru jafn mikilvægur og fiskveiðarnar. (Forseti hringir.) Ég held því fram að það sé svigrúm þarna (Forseti hringir.) þrátt fyrir, herra forseti, að hv. þingmaður hafi eytt tveimur nóttum í að lesa þessa skýrslu.