143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:16]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er hraðlæsari en ég. Ég rembdist eins og rjúpan við staurinn næstum því í heila nótt og heilan dag, og aldrei þessu vant sveikst um að sinna löggjafarstörfum, og náði því að fara á handahlaupum í gegnum þessa skýrslu. Ég náði því til dæmis að lesa nokkuð vel þá viðauka sem kannski helst tengdust fyrri tíð minni sem ábyrgðarmanns á ferlinum og fann þar ákveðna hluti sem ekki rötuðu inn í aðalskýsluna. Ég hef ekkert verið að kvarta undan því, það er mér nóg að þeir koma fram í einhvers konar viðaukum.

En það er algjörlega skýrt, af því að hv. þingmaður hélt langa og snjalla ræðu um landbúnað Íslands, að ég er í fyrsta lagi þeirrar skoðunar að það séu mikil sóknarfæri, ekki síst fyrir skagfirska efnahagssvæðið, ef við gengjum inn. Þessi hæstv. ráðherra er til dæmis önnum kafinn við það og rembist vonandi við það eins og rjúpan við staur þessa dagana að auka tollkvóta fyrir íslenskan landbúnað á ESB, þ.e. útflutningskvóta okkar, vegna þess að það er vaxandi eftirspurn þar. Öll þróun í heiminum, sérstaklega í landbúnaðarframleiðslu, gerir það að verkum, m.a. fríverslunarsamningur Kína og Nýja-Sjálands sem hefur áhrif á eftirspurn eftir íslenskum landbúnaðarvörum í Evrópu, að ég er þeirrar skoðunar að þetta mundi stórauka gæði og tækifæri íslensks landbúnaðar.

Er hægt að semja þannig að til dæmis væri hægt að koma við ígildi tollverndar? Það kemur fram í viðaukanum sem Ágúst Þór Árnason skrifar að það er hægt. Svo kemur fram að hann segir að þetta séu ekki óleysanleg vandamál, það skiptir máli. Það sem skiptir mestu máli, og hv. þingmaður verður að lesa meira en sérvalda almenna kafla, er að prófessor í stjórnskipunarrétti hefur í fyrsta skipti í texta orðað þessa hluti þannig að sérlausnir séu fær leið og þar af leiðandi líka í (Forseti hringir.) sjávarútvegi. Það er staðreynd máls sem ég veit að herra forseti er mér sammála um að við getum ekki horft fram hjá.