143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:18]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er upp með mér að hv. þingmaður og fyrrverandi utanríkisráðherra veiti mér andsvör, mér þykir vænt um það. Í grundvallaratriðum erum við kannski ekki sammála um aðild að Evrópusambandinu, eins og komið hefur mjög skýrt fram, sérstaklega í dag. Eins og ég sagði áðan er margt gott við Evrópusambandið og hugsanlega, eins og hv. þingmaður bendir á, fælust tækifæri í því að vera hluti af landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins.

Eftir sem áður tel ég aðalatriðið vera, hvort sem við aðhyllumst landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins eða ekki, hina gullnu setningu á bls. 32 í skýrslunni:

„Gengið er út frá því að umsóknarríki sækist eftir aðild.“

Það er ekki til staðar núna. Kannanir sýna að meiri hluti Íslendinga vill ekki ganga í Evrópusambandið. Ríkisstjórnarflokkarnir vilja ekki ganga í Evrópusambandið. Þetta grundvallaratriði fellur því um sjálft sig. Ég get upplýst hv. þingmann um það að lokum, ég vona að hann sé að hlusta hérna á bak við hurðina, að ég hyggst klára að lesa alla viðaukana, væntanlega um helgina, og kem enn þá betur undirbúin í næstu viku þegar við klárum umræður um skýrsluna.