143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þingflokkur Samfylkingarinnar gerir alvarlegar athugasemdir við það hvernig ákvörðun stjórnarmeirihlutans um að draga umsóknina um aðild að Evrópusambandinu til baka var tilkynnt okkur og á hvaða grunni hún er byggð.

SMS-skilaboð voru send frá Alþingi um kvöldmatarleytið á föstudaginn um að þingskjalinu um viðræðuslit hefði verið dreift á Alþingi. Ekkert samráð var haft við þingflokksformenn um dagskrá fundarins í dag en hæstv. forseti hefur tekið málið af dagskrá þingfundar eftir að hann hafði haldið fund með þingflokksformönnum um hádegisbilið, enda er það með ólíkindum að tillaga um að slíta aðildarviðræðum við ESB hafi verið sett á dagskrá þingsins áður en umræðum um skýrsluna sem átti að undirbyggja ákvörðun stjórnvalda um hvert framhaldið yrði var lokið í þingsal. Það er sjálfsögð krafa að málið fari ekki á dagskrá fyrr en skýrslan sem á að undirbyggja ákvörðun stjórnvalda hefur fengið þinglega meðferð, bæði hér í þingsal og í þingnefndum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)