143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:08]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Í þessu máli opinberast hvers lags pólitískir hryggleysingjar það eru sem skipa þessa ríkisstjórn, hvers lags pólitísk lindýr það eru sem þora ekki að fara með þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu og fá úr því skorið í atkvæðagreiðslu allra atkvæðabærra manna hvernig beri að halda málinu áfram. Þess í stað er gripið til þess ráðs seinni part á föstudegi, í skjóli nætur því sem næst, að senda út tilkynningu um dreifingu þessa máls. Þetta er slíkt óhæfuverk, pólitískt óhæfuverk sem hér er verið að fremja að því er ekki hægt að finna samjöfnuð í íslenskri pólitískri sögu. Ég hvet ríkisstjórnina til að draga þessa tillögu til baka vegna þess að bergmál þessa voðaverks mun óma lengi ef svo heldur fram sem horfir.