143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:16]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það verður að segja eins og er að síðasti föstudagur var ótrúlegur, fyrst með hinum venjulegu fréttaskotum hér og þar á netmiðlum um að stjórnarflokkarnir hefðu samþykkt að leggja fram tillögu um að slíta viðræðum við Evrópusambandið — og það í miðri umræðu, virðulegi forseti, um skýrslu sem ríkisstjórnin hafði beðið um og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hafði skrifað. Í miðri umræðu kemur tillaga um að slíta aðildarviðræðum.

Hvað verður þá að segja? Það verður að viðurkenna það sem vel er gert og ég er fegin því að forsetinn sá sig um hönd, hafði vit fyrir forustu ríkisstjórnarinnar og tók málið af dagskrá. Einnig fagna ég því að hann hefur sagt að hann telji að skýrslan eigi að fara til umfjöllunar í utanríkismálanefnd. Ég þakka forseta fyrir skynsemina nú á síðustu mínútum.