143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Vegna ummæla hæstv. fjármálaráðherra vil ég taka það fram að ég kvíði því alls ekki að fara í efnisumræðu um Evrópusambandsmál í sjálfu sér og hér í þinginu er skýrsla Hagfræðistofnunar sem er innlegg í þá umræðu. En ég geri engu að síður verulega athugasemd við það hvernig málið ber að.

Í fyrsta lagi vil ég nefna það að skýrslan sjálf var birt í byrjun síðustu viku, var komin til fjölmiðla áður en hún kom á vef þingsins og var sett síðan á dagskrá þingsins daginn eftir. Skýrslan með öllum fylgiskjölum er á níunda hundrað blaðsíður. Það er útilokað að þingmenn hafi getað farið í gegnum þá skýrslu áður en sú umræða hófst. Það er ámælisvert.

Efnisatriði þessarar tillögu af hálfu hæstv. utanríkisráðherra koma mér í sjálfu sér ekkert á óvart og ég ætla ekki að ræða það hér heldur hitt sem síðan gerist, að henni er dreift á föstudagskvöld og hún á að fara inn í þessa umræðu meðan á umræðunni um skýrsluna stendur. (Forseti hringir.) Af hverju er það ekki í lagi? Það er vegna þess að því var heitið að fara ætti fram umræða um skýrsluna, kynna hana fyrir þingi og þjóð áður en lengra yrði haldið í þessu ferli.