143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:20]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig hefur oft fundist vera mikið óskipulag og erfitt að undirbúa sig í þessu starfi, fyrirvarinn er oft skammur. Á föstudaginn sat ég og var að setja niður punkta fyrir ræðu sem ég ætlaði að halda í dag vegna þess að ég ákvað að lesa skýrsluna áður en ég færi í umræðu um hana. Eins og fram hefur komið gafst okkur ekki mikill tími til þess áður en umræða hófst. Um kvöldið frétti ég svo að stjórnarflokkarnir væru búnir að ákveða að slíta aðildarviðræðunum og það áður en ég og fleiri þingmenn höfðum haft nokkuð um málið að segja.

Ég er að reyna að taka þetta ekki persónulega. Það er alveg ljóst að menn höfðu engan áhuga á að heyra hvað við höfðum um málið að segja og þá velti ég fyrir mér til hvers er þá verið að leggja fram skýrslu og kalla eftir umræðum. Mér finnst þetta vera eins og einhver skrípaleikur hérna.

Svo vil ég líka frábiðja mér þá umræðu stjórnarliða við gagnrýni að annað og verra hafi viðgengist á síðasta kjörtímabili. Ef þetta er viðkvæðið batna vinnubrögðin aldrei.