143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hlustið. Hlustið á fólkið þarna úti. Það er allt fullt af fólki þarna og það er brjálað. Það er brjálað aftur, ekki enn þá, heldur aftur. Ekkert endilega vegna þess að hver einasta manneskja þarna úti vilji ganga í Evrópusambandið, heldur vegna þess að manneskjurnar á Íslandi vilja fá að kjósa um það sjálfar.

Það er nefnilega það sem er að hérna, að þingið spyr þjóðina ekki um það sem ýmsir þingmenn úr ýmsum flokkum hafa lofað þjóðinni að þjóðin fái að gera. Það að fyrri ríkisstjórn hafi gert eitthvað eða ekki gert eitthvað eru ekki rök. Það skiptir engu máli. Ef þessi ríkisstjórn var svona lýðræðisleg á síðasta kjörtímabili ætti hún að vera það áfram.

Hæstv. fjármálaráðherra lagði fram á sínum tíma breytingartillögu um að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir greiddi atkvæði með þeirri breytingartillögu vegna þess að hún var góð. Nú hefur verið lögð fram (Forseti hringir.) þingsályktunartillaga um að leggja málið í dóm þjóðarinnar og ef okkur langar til að ljúka þessu máli í eitt skipti fyrir öll þá (Forseti hringir.) samþykkjum við hana og klárum þetta á lýðræðisforsendum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)