143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:35]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í umræðu um þá dæmalausu þingsályktunartillögu sem hér er borin fram vil ég aðeins fara aftur til ágúst sl. Þá boðaði hæstv. utanríkisráðherra að hann einn gæti slitið viðræðum við Evrópusambandið. Forsætisnefnd þurfti að kalla eftir lögfræðiáliti frá yfirlögfræðingi Alþingis til að sýna fram á þá vitleysu sem þar var sett fram.

Nú heldur sú vitleysa áfram. Utanríkisráðherra er kominn með nýja þingsályktunartillögu sem að mínu mati er ekki þingtæk. Í greinargerð sem sett er fram með henni eru þvílíkar svívirðingar og ósmekklegheit, um það að þingmenn hafi jafnvel brotið stjórnarskrá þegar þeir greiddu atkvæði um að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið sem var samþykkt með 33 atkvæðum gegn 28. Það voru þrír þingmenn Framsóknarflokksins — einn þriðji þingflokks, það var svo gott þá, þá voru þrír einn þriðji — sem samþykktu tillöguna. Varaformaður Framsóknarflokksins sagði já. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins sat hjá. Það er ekki hægt að sætta sig við að slík hrákasmíð sem þessi tillaga er sé yfir höfuð lögð fram á Alþingi, hvað þá að hún sé tekin til umræðu.