143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er ekkert að gerast hér á þinginu sem á að koma mönnum á óvart; þ.e. að stjórnarflokkarnir leggi fram tillögu um áherslur sínar í Evrópumálunum og að það gerist í kjölfar þess að kynnt er skýrsla sem margir í stjórnarandstöðunni hafa sagt að breyti engu um stöðu málsins og færi ekkert nýtt inn í umræðuna. Þetta hafa fjölmargir stjórnarandstæðingar sagt í umræðunni. Svo er komið hingað upp og sagt að það sé algerlega bráðnauðsynlegt að taka skýrsluna, sem engu skiptir, og fara með hana í nefnd og ákveða í kjölfar þess næstu skref.

Má ég minna á að það er miklu stærra skref að sækja um aðild að Evrópusambandinu en að viðhalda stjórnmálasambandi okkar við Evrópusambandið á grundvelli EES-samningsins eins og er í raun og veru kjarni þessarar tillögu. Engu að síður var það þannig, þegar tillaga kom fram um að sækjast eftir aðild að Evrópusambandinu, að það fylgdi engin skýrsla, það fylgdi ekki einu sinni greinargerð. Á einni blaðsíðu var lagt til að sækja um aðild að Evrópusambandinu, án skýrslugerðar, án greinargerðar, án nokkurs einasta rökstuðnings (Forseti hringir.) sem var þó risastór ákvörðun í utanríkismálum okkar Íslendinga. (Forseti hringir.) Það er fólkið sem greiddi atkvæði með þeirri tillögu (Forseti hringir.) sem nú kemur og kvartar undan því þegar skýrsla liggur fyrir áður en tillaga kemur fram. Þetta stenst enga skoðun. Eigum við ekki bara að hleypa málinu á dagskrá?