143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:38]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Það gengur náttúrlega ekki að sitja undir því að hæstv. fjármálaráðherra haldi því fram að ekki hafi verið skrifaðar skýrslur áður um mögulega Evrópusambandsaðild en núna. Til dæmis var skrifuð og gefin út ein mjög vönduð skýrsla árið 2007 af nefnd sem var skipuð af þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddssyni. Sú skýrsla er ágæt, í rauninni miklu betri en sú skýrsla sem við ræðum núna þótt hún sé líka ágæt.

Fjölmargar skýrslur hafa verið gefnar út um þetta mál. Auðvitað var sú ákvörðun að sækja um tekin á upplýstum forsendum eftir vandlega þinglega meðferð og atkvæðagreiðslu. (Fjmrh.: En ekki þessarar?) Þessi ákvörðun er þannig að hún kemur algjörlega á óvart, já, vegna þess að stjórnarflokkarnir sögðu ekki frá þessari fyrirætlun sinni þegar þeir gengu til alþingiskosninga síðast. Þeir sögðu þetta ekki svona, þeir sögðu ekki að þeir ætluðu að slíta viðræðunum við ESB án þess að spyrja þjóðina. Það sögðu þeir ekki. Já, þess vegna kemur þetta á óvart, mjög mikið á óvart.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði þegar hann kynnti skýrsluna hér á fimmtudaginn, með leyfi forseta:

„Vona ég að skýrslan muni einnig skapa grundvöll fyrir opinni og hreinskiptinni umræðu í þjóðfélaginu um þetta stóra mál …“

Hæstv. utanríkisráðherra gat haldið í sér í sólarhring, þá lagði hann fram tillögu um að slíta bara þessum viðræðum. (Forseti hringir.) Þurfum ekkert að fara í neina efnislega umræðu um þessa skýrslu, (Forseti hringir.) þurfum ekki að skoða hana.

Ég vona að virðulegur forseti sé annars sinnis (Forseti hringir.) og hann leyfi þinglegri meðferð skýrslunnar að fara fram áður en við tökum ákvörðun um að slíta viðræðunum.