143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[16:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hef virkilegar áhyggjur af því hvernig þessi mál eru að þróast. Ég er ekki hlynnt inngöngu í Evrópusambandið eins og hefur komið skýrt fram, og ekki minn flokkur, en núverandi meiri hluti fer illa með þetta stóra mál, vinnur ólýðræðislega og ætlar að þröngva þessu í gegnum þingið án þess að klára að ræða stöðuskýrsluna sem er hér til umræðu, troða þessu ofan í kokið á þjóðinni og kalla yfir sig mikla reiði almennings í landinu fyrir að fá ekki að koma lýðræðislega að þessu máli.

Ég hef áhyggjur af því að þeir sem segjast vera andstæðingar inngöngu í Evrópusambandið séu búnir að snúa stórum hluta þjóðarinnar til þeirrar áttar að vilja ganga í Evrópusambandið. Það er bara þannig. Vilji þjóðarinnar til að fá að segja sitt álit á þessu máli eykst í sífellu og þjóðin á líka rétt á því. Ef menn vinna svona vinna þeir gegn þeim markmiðum sem þeir segjast standa fyrir, að við eigum ekki heima (Forseti hringir.) innan Evrópusambandsins. Við eigum að leyfa þjóðinni að hafa aðkomu að þessu máli.