143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[16:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem enn einu sinni hérna upp til að þakka þingmönnum Framsóknarflokksins árið 2009, nánar tiltekið 16. júlí, þeim Birki Jóni Jónssyni, sem þá var varaformaður Framsóknarflokksins, Guðmundi Steingrímssyni, sem þá var framsóknarmaður, og Siv Friðleifsdóttur, sem þá var þingmaður Framsóknarflokksins, kærlega fyrir stuðninginn við tillöguna um aðildarumsókn að Evrópusambandinu, jafnframt Ragnheiði Ríkharðsdóttur, hv. þingmanni Sjálfstæðisflokksins, og þáverandi varaformanni Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur.

Þau voru hluti af þeim 33 þingmönnum sem samþykktu aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Það var löglega gert af meiri hluta Alþingis. Það sem verið er að gagnrýna hérna er flumbruhátturinn með þessari tillögu, þessari hrákasmíð sem ég held að sé hárrétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að er skrifuð af utanríkisráðherranum sjálfum. Það getur enginn embættismaður sett það á blað sem hér er sett fram, jafn óforskammað og það er sett hér fram, að leiða að því líkum í greinargerð með þingsályktunartillögu að einhverjir þingmenn hafi brotið stjórnarskrá með því að láta þvinga sig til atkvæðagreiðslu.

Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra: Hvað með framsóknarmennina þrjá sem þarna samþykktu?