143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

framtíðarsýn í gjaldeyrismálum.

[16:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að í skýrslunni er fyrst og fremst fjallað um tvo valkosti. Það felur í sér að Seðlabankinn er í raun og veru að segja að það væri lakari valkostur að taka einhliða upp aðra mynt.

Hv. þingmaður segir að við höfum haft mjög slæma reynslu af því að hafa sjálfstæða mynt í landinu, en það fer auðvitað eftir því hvaða mælikvarða við notum við það mat. Til dæmis ef við notum mælikvarða lífsgæðanna hefur okkur gengið vel á Íslandi þrátt fyrir sjálfstæða mynt sem hefur flakkað töluvert mikið upp og niður með miklum gengissveiflum. Okkur hefur tekist þrátt fyrir þessar sveiflur að stórbæta lífskjör.

Mér finnst hv. þingmaður líka stilla þessu upp þannig að við stöndum frammi fyrir því að hafa krónu sem mun sveiflast mjög mikið og vera í hagkerfi þar sem verðbólga verður há og vextir eða að komast í Evrópusambandið og taka upp evru og komast þannig einhvern veginn í skjól. En nú er það þannig að fjöldi ríkja í evrusamstarfinu er í sárum, upplifir mikinn vanda, glímir við atvinnuleysi, þarf að taka út efnahagssveifluna í gegnum vinnumarkaðinn í stað þess að gera það í gegnum gengið og því fylgja gríðarleg vandamál.

Mín niðurstaða er sú að það er engin einföld lausn til. Við kaupum okkur ekki frá því að þurfa að stunda agaða hagstjórn með því að taka upp mynt einhvers annars myntsvæðis eða mynt annars ríkis. Svarið liggur þess vegna í því að stórauka agann í hagstjórninni. Í því frumvarpi sem ég hyggst kynna fyrir þinginu á næstunni um opinber fjármál verður að finna ný viðmið sem við höfum ekki áður starfað eftir í ríkisfjármálum. Ný ríkisstjórn leggur upp með hallalaus fjárlög, leggur áherslu á að borga niður skuldir og við sjáum ný viðhorf hjá aðilum vinnumarkaðarins á sama tíma sem skipta miklu máli til þess að allir séu að toga í sömu átt.