143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

samkeppnishæfni Íslands á sviði gagnahýsingar.

[17:00]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það er ánægjulegt. Ég fer fyrir starfshópi sem hæstv. ráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir skipaði og þakka kærlega fyrir það. Við töluðum um þetta í haust og hún var áhugasöm um að efla atvinnulífið með internetinu og sjá hvernig hægt er að auka verðmætasköpun og nýta þau tækifæri fyrir samfélagið og menntakerfið o.s.frv. Það var mjög ánægjulegt að hún sagði strax: Við skipum bara starfshóp, þú ferð fyrir honum. Þarna höfum við manneskju sem er röggsöm og tilbúin að taka við góðum hugmyndum hvaðan sem þær koma.

Mig langar að reyna að setja málið í forgang og ætla að athuga hvort hæstv. fjármálaráðherra vill aðstoða mig við það, hvort ég geti átt fund með honum eða aðilum í ráðuneytinu sem eru að vinna að málinu þannig að við getum sett það í forgang, af því að þarna virðist vera lagður steinn í götu þess að nýta alveg ofboðsleg tækifæri. Gæti ég átt fund með hæstv. ráðherra, gæti hann varðað veginn (Forseti hringir.) til þess að flýta málinu?