143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

mótmæli atvinnulífsins við slitum aðildarviðræðna við ESB.

[17:08]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Mér finnst hv. þingmaður taka ansi stórt upp í sig þegar hún talar um skemmdarverk. Í tillögunni er lagt til að slíta viðræðum, draga umsóknina til baka og að umsókn um aðild að Evrópusambandinu verði ekki nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er eitthvað sem hv. þingmaður treysti sér ekki til að leggja í dóm þjóðarinnar á síðasta kjörtímabili jafnvel þótt hún hefði kost á því.

Ef það er þannig að íslenska þjóðin krefjist þess að ganga til viðræðna við Evrópusambandið er næstu ríkisstjórn, (KaJúl: Þið eruð að eyðileggja möguleikann næstu áratugina.) ef hún er þeirrar skoðunar, er í lófa lagið (Gripið fram í.) að leggja þá spurningu fyrir þjóðina.(Gripið fram í.)(Forseti hringir.)

Mig langar líka … (Gripið fram í.)(Forseti hringir.) Hæstv. forseti. Ég treysti því að ég fái auka tíu sekúndur til að ljúka máli mínu.

(Forseti (KLM): Forseti vill minna á það að þegar forseti slær í bjöllu ber ræðumanni að stöðva ræðu sína. Forseti vill koma þeim skilaboðum á framfæri að sá sem er í ræðustól hefur einn leyfi til að tala í þingsal.)

Ég vil bara að lokum, virðulegur forseti, vegna þess að hv. þingmaður talaði hér fjálglega um afstöðu samtaka í atvinnulífinu um afstöðu félagsmanna til aðildar að Evrópusambandinu, vísa í tiltölulega nýlega könnun um afstöðu félagsmanna í Félagi atvinnurekenda, því hún nefndi það. (Gripið fram í.) Þar kemur í ljós að 16,1% (Forseti hringir.) félagsmanna vilja ganga í Evrópusambandið og 39,3% vilja halda áfram aðildarviðræðum. (Forseti hringir.) Það er því algjörlega ljóst að það eru skiptar skoðanir um þetta mál. Eigum við ekki að (Gripið fram í.)sameinast um (Forseti hringir.) að gera það sem við þurfum að gera strax, ná stöðugleika og ná tökum á efnahagsmálunum (Forseti hringir.) (KaJúl: … segja ósatt.) og tala svo saman.