143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

þingleg meðferð mála frá utanríkisráðherra.

[17:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég held að sú tillaga sem hv. þm. Róbert Marshall flutti úr ræðustól áðan sé giska góð og menn eigi að ígrunda hana mjög vel.

Ég vil rifja upp að fyrir helgi veltum við því upp úr þessum ræðustól hvort ekki væri örugglega tryggt að hér yrðu engar ákvarðanir teknar fyrr en skýrsla Hagfræðistofnunar væri komin til umfjöllunar hjá hv. utanríkismálanefnd og búið að vinna hana á þeim vettvangi. Þá sagði hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, að hann væri mjög opinn fyrir því að sú skýrsla fengi sams konar umfjöllun og menn teldu nauðsynlega til að ljúka málinu farsællega. Tveir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Brynjar Níelsson og Vilhjálmur Bjarnason, töluðu mjög í svipaða veru. Mér finnst mikilvægt að það komi hér fram að fyrir utan þá ósk stjórnarandstöðunnar hefur komið fram ríkur skilningur, herra forseti, á henni innan stjórnarliðsins. (Forseti hringir.)