143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

þingleg meðferð mála frá utanríkisráðherra.

[17:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að mér finnst vinnubrögðin á Alþingi stundum vera alveg kostuleg. Hér rífumst við eins og hundar og kettir um eitthvað sem við gætum leyst á mjög einfaldan máta og það er með því að setja málið í dóm þjóðarinnar. Það er ekkert flókið, það er ekkert erfitt, sagan hefur ekki sýnt að þjóðin hafi almennt ekki hundsvit á einu eða neinu. Þvert á móti, þegar þjóðin fær að ráða fer hún og kynnir sér málið vegna þess að hún finnur að hún skiptir máli. Ef maður talar við fólk um ESB núna er það mjög gjarnt á að segja bara: Hvaða máli skiptir þetta, ekkert sem ég segi skiptir máli? Og það er satt yfirleitt, það er það ljóta í þessu.

Við getum alveg breytt því og þá getum við sleppt því að vera hérna í kvöld og vera heillengi að ræða þetta, við getum leyft þjóðinni að ákveða þetta, bara með sveitarstjórnarkosningunum í vor eftir tilhlýðilega umræðu og eftir að þjóðin sjálf hefur fengið að ljúka við þessa skýrslu. Þessi vinnubrögð sem við sýnum hér eru þinginu til skammar.