143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

þingleg meðferð mála frá utanríkisráðherra.

[17:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Í sjálfu sér er fundarstjórn forseta í bili alveg lýtalaus en ég vil engu að síður koma með þá tillögu að forseti beiti sér fyrir því að fljótlega verði gert hlé á þessum fundi og formenn þingflokka hittist ásamt forseta. Dagurinn byrjaði ekki vel, forseti Einar K. Guðfinnsson, tók að vísu þá skynsamlegu ákvörðun að gera breytingu á dagskránni og taka út af dagskrá umdeilt þingmál sem birtist óforvarandis á henni í morgun. Því miður var svo í kjölfarið þvingaður fram kvöldfundur með atkvæðagreiðslu án þess að það væri rökstutt vandlega hvaða brýnu nauðsyn bæri til að demba á kvöldfundi í ágreiningi, óforvarandis og upp úr þurru.

Slíkt eru ekki góð vinnubrögð, skilur eftir hálfgert óbragð í munni manna. Ég held að áður en farið er lengra út í ágreiningsfenið væri skynsamlegt af forseta að hóa mönnum saman (Forseti hringir.) og fara aðeins yfir málið.