143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:38]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að við getum verið sammála um að þetta mál er eitt af stóru málunum sem komið hafa til þingsins. Hugmyndin og hugsanir fólks um það hvort Íslandi sé betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins hafa klofið bæði þjóðina og pólitískar hreyfingar eins og umræður hér í dag og síðustu daga hafa svo berlega leitt í ljós.

Skoðanakannanir sýna að meiri hluti þjóðarinnar telur að við eigum að klára viðræðurnar úr því sem komið er og leggja samning á borð fyrir þjóðina þannig að hún geti tekið upplýsa afstöðu. Ég get í raun ekki neitað því að það er ævinlega betra að taka afstöðu til mála þegar fyrir liggur niðurstaða eða að minnsta kosti viðunandi upplýsingar til að ekki þurfi að geta sér til um hver niðurstaðan gæti hugsanlega verið.

Það er rétt að koma því að strax, eins og öllum á að vera ljóst, að afstaða míns flokks, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, til umsóknar að Evrópusambandinu er og hefur verið skýr. Við féllumst á þá hugmynd að hafnar yrðu aðildarviðræður milli Íslands og Evrópusambandsins með það að markmiði að kannaðir yrðu kostir og gallar þess að Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu með því fororði að aldrei yrði um aðild Íslands að ræða án þess að það hefði áður verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það hefur vissulega ekki verið hreyfingu minni auðvelt að þurfa að vinna að eins góðum samningi og hægt er og hafa á sama tíma efasemdir um aðildina. En við teljum að lýðræðisrökin séu sterkari en ákvörðun einstakra stjórnmálamanna.

Sú sem hér talar hefur haft þá skoðun að Evrópusambandsaðild sé ekki vænlegur kostur fyrir okkur Íslendinga. Margir félaga minna í Vinstri grænum eru sama sinnis en einhverjir eru á öðru máli eins og gengur. Við erum hins vegar sammála um að engin leið sé réttari eða betri til að komast að niðurstöðu um þetta mikla álitamál en lýðræðislegt, upplýst og opið ferli sem lýkur með þjóðaratkvæði.

Það vill nefnilega þannig til að við, þingmenn hér inni, erum fulltrúar þeirra sem í flokkunum okkar eru og kusu þá en ekki bara okkar sjálfra. Þar af leiðandi getur það vissulega skipast þannig að þeir sem sitja hér inni séu ekki samþykkir aðild eða því að ganga í ESB en það þýðir ekki að þeir eigi ekki að vera fulltrúar þeirra innan sinna flokka sem kjósa að slíkt sé gert.

Eins og ég sagði áðan leggjum við vinstri græn áherslu á lýðræðislegt ferli, óháða upplýsingagjöf og fræðslu og við treystum þjóðinni til að ráða niðurstöðunni.

Ég hef talið og sagt að það hefði auðvitað verið eðlilegast á sínum tíma að leggja málið í dóm þjóðarinnar í upphafi áður en viðræður hófust hvort leggja ætti í þá vegferð að semja um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ákvörðun um aðildarviðræður var og er svo stórt og viðamikið málefni að þjóðaratkvæðagreiðsla í upphafi hefði átt þar vel við og hefði styrkt málið. Það var því miður ekki gert og er til lítils að sýta það nú.

Nú fyrir helgina lagði utanríkisráðherra fyrir Alþingi skýrslu um aðildarviðræður við ESB og þróun mála innan sambandsins. Sjálfsagt er að þakka hana því að enda þótt hún flytji okkur fátt nýtt er þar svo sem að finna ágæta samantekt á ferlinu hingað til. Hún svarar hins vegar engum spurningum um framhaldið enda vart við því að búast því að svör við þeim spurningum sem brýnast er fyrir okkur Íslendinga að svarað verði fást aðeins með því að ganga þá braut til enda sem mörkuð var með ákvörðuninni um aðildarviðræður og þjóðaratkvæði. Hæstv. ráðherra sagði reyndar í útvarpsþættinum Sprengisandi í gær að umræðum um skýrsluna væri lokið. Það finnast mér ótrúlega merkileg ummæli í ljósi þess að hér eru ansi margir þingmenn á mælendaskrá eins og komið hefur fram í umræðum í dag. Þá upplifir maður sig augljóslega þannig að við höfum ekkert til málanna að leggja, getum engu bætt við frekar en restin af þjóðinni sem stóð hér fyrir utan meðal annars í dag og barði.

Hæstv. forseti. Við sem hér erum, þjóðkjörnir fulltrúar á þjóðþingi lýðræðisríkis, ættum síst allra að verða til þess að víkja okkur undan lýðræðinu. Við ættum ekki að verða til þess að hindra landa okkar í því að leiða eitt mikilvægasta mál samtíðarinnar til lykta með atkvæði sínu. Við eigum að hafa hugrekki og einurð til þess að láta aðildarviðræðurnar halda áfram eins og til var stofnað og hlíta niðurstöðu þjóðarinnar um málið.

Ég er ánægð með þá ákvörðun og tel það vera til þess fallið að auka virði umræðunnar að hv. utanríkismálanefnd muni fjalla um málið en ég hefði líka talið æskilegt að hún hefði skýrslu Alþjóðamálastofnunar með í sína vinnu og gæti þar af leiðandi tekið utan um málið af skynsemi og með hagsmuni þjóðarinnar í huga.

Við vitum svo ekki hvað verður, það kom ekki alveg skýrt fram áðan. Það veldur áhyggjum. Hæstv. ráðherra svaraði í raun ekki því sem ég beindi til hans hvað það mál varðaði, hvort hann væri sama sinnis hvað varðaði útskýringar forseta á framvindu málsins.

Fram kom í umræðunni fyrir helgi að samninginn við háskólann um gerð þessarar skýrslu sem við höfum til umfjöllunar og viðaukann sem inniheldur umbeðin efnisatriði er ekki að finna í þeim gögnum sem við þingmenn höfum í höndunum. Hæstv. utanríkisráðherra sagðist í svari við fyrirspurn frá formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ætla að sjá til þess að þau yrðu aðgengileg á vef ráðuneytisins en þau voru þar ekki áðan, a.m.k. fann ég þau ekki. (Utanrrh.: Þau eru þar …) Hæstv. ráðherra segir að þau séu þar, ég sá þau hins vegar ekki en formaður minn sagði mér áðan að hún hefði fengið þau afhent. Það er ekki opinber birting og ég óska þá eftir að það sé gert það aðgengilegt að ekki þurfi að leita að því sérstaklega.

Bent hefur verið á að önnur skýrsla sé væntanleg, eins og ég sagði áðan. Svör ráðherra fyrir helgi voru á þá leið að ekki þyrfti að taka mark á skýrslu sem pöntuð væri með ákveðinni forskrift. Var þá sú skýrsla sem við fjöllum hér um ekki pöntuð samkvæmt forskrift? Getum við treyst því? Það eina sem ég sá í viðauka við samninginn var að sett voru fram tiltekin efnisatriði sem áttu að vera í samræmi við stjórnarsáttmálann.

Hver voru þessi efnisatriði? Hverjar voru raunverulega forsendur? Hvernig var það skilgreint? Hvaða spurningum átti að svara í þessari skýrslu og hvaða spurningum ekki? Hver er svo gagnsemin? Komu svör við öllum spurningunum sem lagt var upp með? Það væri ágætt ef hæstv. utanríkisráðherra gæti listað það hér upp.

Í ljósi þess sem búið er að ákveða um framhald málsins er ekki nema von að maður spyrji sig hvort spurningarnar hafi verið leiðandi nú þegar engin þörf virðist vera á því að málið sé rætt meira samkvæmt hæstv. utanríkisráðherra. Við borgum 25 millj. kr. fyrir skýrslu sem virðist vera málamyndaplagg eða gott uppflettirit svona til söguskýringa síðar meir. Það undirbyggir að minnsta kosti ekki ákvörðun sem birtist um sólarhring eftir að búið er að koma skýrslunni til umræðu í þinginu.

Kannski þurfum við helst að ræða um það sem ekki var spurt um. Margir úr hópi hv. þingmanna hafa tekið til máls í umræðum um skýrslu hæstv. utanríkisráðherra eins og við er að búast um svo brýnt mál og þar hefur í sjálfu sér ekkert komið á óvart. Þau úr hópi þingmanna sem voru andvíg aðild eru það enn og þau sem eru fylgjandi eru það enn. Það má því segja að skýrslan valdi ekki straumhvörfum í þessum umræðum, það er alveg ljóst.

Það hefur sannarlega verið dálítið kyndugt á stundum að hlusta á hv. þingmenn, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, túlka útsýnið til Evrópusambandsins hver fyrir öðrum á grundvelli margnefndrar skýrslu og geta sér til um niðurstöðu viðræðna. Það staðfestir enn frekar þá skoðun mína að þessu máli ljúki ekki hér eftir þessa umræðu þrátt fyrir fram komna tillögu um að málinu skuli slitið.

Ég spyr mig: Erum við hér inni þess umkomin að ákveða niðurstöðu í viðræðum sem ekki hafa átt sér stað nema að litlu leyti? Það virkar á mig eins og unglingur sem veit að hann gerði eitthvað af sér, verður skammaður fyrir eitthvað og er búinn að fara með málsvörnina í huganum og einnig svör foreldris fyrir fram.

Sumir í hópi þingmanna telja að Ísland geti átt kost á ýmsum sérlausnum sökum sérstöðu sinnar en aðrir taka þvert fyrir það. Sumir þingmenn hafa eytt í þetta talsverðri orku og viðrað spádómsgáfu sína um úrslit ýmissa mála. Þetta er sjálfsagt allt gert í góðri meiningu en leiðir hins vegar ekki til neins. Það verður að benda þessum hv. þingmönnum á að eina leiðin fyrir þá til að fá botn í vangaveltur sínar sé að tekin verði ákvörðun um að ljúka viðræðum og taka afstöðu til þess sem út úr þeim kemur en ekki að slíta viðræðum og geta sér til um niðurstöðu.

Ég tel að allir, bæði aðildarsinnar og þeir sem alls ekki vilja ganga í ESB, séu þess fullmeðvitaðir að um er að ræða ríka hagsmuni fyrir íslenska þjóð. Öll sjónarmið eiga rétt á sér og við getum ekki leyft okkur að gera lítið úr andstæðum málsrökum og tilfinningum sem tengjast þessu máli.

Í umræðunni hefur líka komið fram að margir málaflokkar falla undir EES-samninginn og um leið eru efasemdir um þá þýðingarmiklu hluta þess sem utan eru, m.a. sjávarútveg og landbúnað. Þetta eru afar umfangsmikil málasvið og við vitum að aðild að Evrópusambandinu þýðir stóraukið framsal á innlendu valdi til yfirþjóðlegra stofnana. Um það deilum við tæpast.

Hitt er meira álitamál hvort ávinningurinn af aðild sé slíkur að hann vegi upp eða réttlæti yfirleitt slíkt valdaframsal. Vissulega hefur líka verið bent á í umræðunni að aðildarríki Evrópusambandsins eru nú orðin 27 og ekkert þeirra mun líklega telja sig ósjálfstætt eða ófullvalda ríki vegna aðildarinnar, eins og látið hefur verið að liggja í umræðunni. Ákvörðun af þessu tagi er hins vegar þess eðlis að hana getur þjóðin einungis sjálf tekið og hún á að taka hana.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að ríkisstjórnin og sá þingmeirihluti sem að henni stendur hefur ekki farið leynt með þá skoðun sína að aðild að Evrópusambandinu komi ekki til greina fyrir Ísland, en nú þarf að svara fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem lofað var um málið sem margir kjósendur, sérstaklega Sjálfstæðisflokksins, telja sig vera hlunnfarna um vegna þeirrar ákvörðunar sem nú hefur verið tekin af ríkisstjórninni. Í kosningabæklingi Sjálfstæðisflokksins stendur, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Kjósendur ákveði í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu hvort aðildarviðræðum skuli haldið áfram.“

Er hægt að misskilja það eitthvað? Það tel ég ekki og ég tel að þeir séu sama sinnis sem stóðu úti á Austurvelli áðan og börðu, ég tala nú ekki um þá sem látið hafa í sér heyra úr herbúðum Sjálfstæðisflokksins. Kannski er loforð bara spurning um orðalag, kannski er þetta allt saman eintómur misskilningur. Það væri þá ekki sá fyrsti sem þessi ríkisstjórn þarf að fást við.

Það liggur fyrir að meiri hluti þjóðarinnar vill klára viðræðurnar. Það hefur margkomið fram. Ef eitthvað er er að aukast sá hluti þjóðarinnar sem það vill, alveg sama hvort um er að ræða fólk sem aðhyllist inngöngu eða ekki. Ég tel að við þingmenn getum ekki sagt að við viljum eða viljum ekki fyrr en eitthvað formlegt liggur fyrir sem hægt er að taka afstöðu til. Það er mín skoðun. Aðild er stærri en ríkisstjórn eða stjórnmálaflokkar og þjóðin á að gefa leiðbeiningar um hvað gera skal.

Forsvarsmenn stjórnarflokkanna hafa því miður ákveðið, eins og margoft hefur komið fram í dag, að draga umsóknina til baka áður en umræðu um þessa góðu skýrslu er lokið. Ég velti því upp hvernig hægt sé að segja að svona skýrsla eigi að vera grundvallarplagg til ákvarðanatöku eftir ítarlega umræðu í þinginu og kynningu meðal þjóðarinnar og hvort það samræmist því að leggja fram tillögu um að draga umsóknina til baka eða slíta viðræðum eins og hér hefur verið gert. Er þetta sanngjarnt, lýðræðislegt? Það tel ég ekki vera. Enda þótt ég sé ekki endilega fylgjandi aðild Íslands að Evrópusambandinu þykir mér þessi niðurstaða ekki góð. Í mínum huga er ljóst að þessi skýrsla skipti engu máli um ákvörðunina, það var búið að taka hana, og þá hefðu menn bara átt að standa með þeirri ákvörðun sinni (Forseti hringir.) en ekki vera með slíkan hráskinnaleik sem hér var leikinn. Að efna bara til þjóðaratkvæðagreiðslu þegar ráðamenn telja að niðurstaðan verði þeim þóknanleg felur í sér hugleysi gagnvart lýðræðinu og vantraust á dómgreind landsmanna.

(Forseti (KLM): Eitthvert ólag var á klukkunni í ræðustól en tíminn hefur verið nákvæmlega mældur 15 mínútur sem hv. þingmaður notaði þó að það hefði verið á rauðu ljósi allan tímann.)