143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:58]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég get alveg verið sammála því að það er allt í lagi að skoða það hverju sinni hvort ástæða er til. Okkur þótti ekki tímabært að draga umsóknina til baka á síðasta kjörtímabili og þess vegna gerðum við það ekki. Við töldum að betra væri að halda áfram og þess vegna gerðum við það.

Hins vegar var umræðan sett á ís, eins og hæstv. utanríkisráðherra veit, og það er bara allt annar hlutur en það sem hann er hér að leggja til, að viðræðum verði slitið. Hér er allt of margt í húfi. Efnahagsástand landsins liggur undir. En hæstv. utanríkisráðherra virðist einhvern veginn vera nokk sama um hver framtíð efnahagsmála verður miðað við þessa tillögu. Ég held að það sé alveg ljóst, því að það er ekki ábyrgt að gera þetta með þessum hætti.