143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:02]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Allt er í heiminum hverfult, það er bara þannig. Það þýðir ekki endilega að við munum búa við óbreytt ástand á Íslandi næstu 25 árin. Ég ætla rétt að vona ekki. Ég hef miklar áhyggjur ef svo verður, það er alveg ljóst, því að staðan er alls ekki eins og við vildum hafa hana. (PHB: Hluti af Evrópusambandinu.)Ég sagði áðan, og þingmaðurinn ákvað fyrir mína hönd að ég mundi vilja gerast aðili að ESB, þegar hv. þingmaður spurði mig beint að ef afar góðir samningar næðust mundi ég væntanlega gera ráð fyrir að þeir mundu endast að minnsta kosti, eins og annar hv. þingmaður sagði, í ein þúsund ár eða svo, það dygði alveg til. Við erum auðvitað ekki að tala um skammtímahagsmuni þegar við erum að tala um góða samninga, eða ég vænti þess að þingmaðurinn hugsi ekki þannig. 25 ár er skammur tími í mínum huga þegar við erum að tala um veruleika heillar þjóðar, það er alveg ljóst. Það að leggja mér þau orð í munn að ég mundi ganga í eitthvað með einhverjum skammtímasjónarmiðum, nei, það er ekki þannig.