143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:03]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Út af þeim orðum sem hér féllu og voru höfð eftir hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem þá var fjarstaddur umræðuna vil ég ítreka að hv. þingmaður sagði þetta margoft og skilyrti það margoft með því að ef að í ljós kæmi að hann teldi að ómögulegt væri að ná fram þeim markmiðum sem Alþingi hefði samþykkt bæri að hætta samningunum. Ég er algjörlega sammála því. Það eru engar nýjar fréttir hjá hæstv. ráðherra.

Frú forseti. Í þessari skýrslu finnst mér margt nýtt og sérstakt koma fram. Höfuðatriðin í henni eru þau í fyrsta lagi að þar kemur skýrt fram af hálfu prófessors emeritusar Stefáns Más Stefánssonar að eðli Evrópusambandsins sé ekki eðli ríkjasambands. Þar kemur líka skýrt fram að Íslendingar munu halda fullum yfirráðum yfir öllum auðlindum sínum og þarf ég ekki að telja þær upp. Þar kemur líka fram með afar merkum hætti að í reynd sést til lands í öllum samningsköflum nema fjórum. Það vissum við auðvitað fyrir fram. Það blasir hins vegar við að það liggur fyrir samningsafstaða þar sem ég held að hæstv. utanríkisráðherra hefði átt að birta, en það er hans mál en ekki mitt.

Það sem er mikilvægast út frá því hvernig umræðan hefur þróast er að þrátt fyrir allar okkar deilur um sérstakar undanþágur, varanlegar undanþágur, tímabundnar eða ekki, slær fremsti sérfræðingur okkar á sviði Evrópuréttar, Stefán Már Stefánsson, sem er skeptískur á Evrópu, í gadda að sérlausnir eru fær leið samkvæmt reglum Evrópusambandsins.

Þá langar mig til að spyrja hv. þingmann: Telur hún ekki í ljósi þeirra ummæla og þess hvaðan þau koma að þar með sé að minnsta kosti búið að leggja til hvílu eitt þrætueplið varðandi þessa vegferð okkar?