143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:05]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sérlausnir eða ekki sérlausnir, það var akkúrat það sem ég kom inn á í ræðu minni. Mér finnst, eins og ég sagði, margir hafa viðrað hér spekingslegar skoðanir hvað það varðar og talið sig vita eitt og annað. Ég tek auðvitað undir þau sjónarmið sem koma fram í skýrslunni að eflaust er þetta möguleiki. Það breytir því samt ekki í mínum huga að við getum rætt þetta okkar á milli, þingmenn, skipst á skoðunum um hvað við höldum eða höldum ekki um sérlausnir og annað slíkt, hvort um þær er að ræða, en niðurstaðan fæst aldrei nema við göngum alla leið til þess að ná góðum samningum. Það er alveg ljóst. Þess vegna styrkir það kannski það sem við vorum að segja áðan, að menn leggja ekki á borðið samninga sem þeir eru ósáttir við. Þeir hljóta alltaf að reyna að gera það besta fyrir land sitt og þjóð. Þá leggja þeir eitthvað til. Ef það er alveg ómögulegt eða ekki það sem við viljum sjá leggjum við það auðvitað ekki fram. Það er alveg ljóst í mínum huga.