143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar fjármálakreppan í Evrópusambandinu og evrukreppan stóðu sem hæst voru tveir stjórnmálamenn í Evrópu, Merkel og Sarkozy, sem hittust og tóku ákvarðanir. Það var kallað Merkozy. Tveir stjórnmálamenn tóku ákvörðun um allt sambandið. Þeir spurðu ekki Finnland, þeir spurðu ekki Pólland, þeir spurðu ekki Rúmeníu eða Ítalíu. Nei, þeir tóku ákvörðun af því að það þurfti að taka ákvörðun hratt og þeir gerðu það og þetta var keyrt í gegn.

Nú spyrja menn: Hvar er lýðræðið? Hvað hefði Ísland mikil áhrif á lagasetningu eða ákvörðunartöku í Evrópusambandinu umfram til dæmis Finnland, Danmörku eða önnur ríki sem eru mikið stærri en Ísland en samt lítil. Þau hafa sáralítil áhrif á Evrópusambandið.

Auðvitað geta duglegir þingmenn náð sínu fram og áhrifum sínum en það er ekki gert ráð fyrir því.